Færsluflokkur: Dægurmál
3.4.2010 | 20:23
Gengið fyrir göngum.
Sjötta ganga "Göngum göngum hópsins" var gengin í morgun laugardaginn 3. apríl 2010. Lagt var upp frá Herðubreið kl.10.00. Þar voru mættir 7 hraustir göngugarpar, en veður hafði verið heldur hryssingslegt kl.08.00 þegar venjulegt fólk fór á fætur og enn verra þegar ýmsir aðrir vöknuðu fyrst kl.05 og síðan kl.07 og nefnum við engin nöfn í því sambandi. En aftur að göngunni. Sjö manns lögðu galvaskir af stað frá Herðubreið og var einn göngugarpurinn í gifsi á hægra fæti og hafði haganlega komið fyrir ullarsokk utan yfir gifsið til að forðast hálkuslys. Tveir göngumenn höfðu áttað sig á vindáttinni og látið keyra sig upp að skíðaskál í Stafdal. Þessir tveir voru til viðbótar þeim 7 sem örkuðu frá Herðubreið. Tíundi gögnugarpurinn bættist síðan i hópinn rétt ofan Réttar. Var því að þessu sinni bæði um uppgang og nðurgang að ræða. Við sem stunduðum uppgöngu mættum þeim sem voru í niðurgangi við Gufufoss en þeir okkur aftur á svipuðum slóðum örlítið neðar. Ýmis met voru slegin í göngu þessari og setti undirritaður t.a.m. persónulegt hraðamet í uppgögnu að skíðaskála miðað við færð og aðstæður allar og kom í mark á tímanum 1.5 klst eða þar um bil enda mælingar mjög ónákvæmar. Töluverð hálka var og töldu þeir sem gengu uppeftir ráðlegt að láta keyra sig niður. Einn fór þó fótgangandi áleiðis og átti von á frúnni að sækja sig. Sá skilaði sér heill til byggða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrirhuguð er ársfjórðungsleg "Göngum göngum" ganga laugardaginn 3. apríl 2010. Lagt verður upp frá félagsheimilinu Herðubreið kl.10.00 Vegna snjóþunga á heiðinni og snjóganga er óvarlegt að ganga yfir háheiðina og mun því verða gengið upp að skíðaskálanum í Stafdal. Þar mun verða hægt að kaupa veitingar (kaffi, kakó og vöflur). Allir eru hvattir til að mæta og leggja þessu góða málefni lið, en tilgangurinn með göngunni er að vekja athygli á nauðsyn jarðganga til Seyðisfjarðar og að koma bænum okkar í almennilegt vegasamband við umheiminn.
Alla síðustu viku hefur verið ýmist þungfært, þæfingur, lélegt skygni eða hreinlega ófært yfir Fjarðarheiði og í morgun var viku afmæli þessa ástands. Síðast liðinn mánudag kom undirritaður úr fundarferð frá Reykjavík, ásamt eiginkonu, dóttur og dóttursyni. Máttarvöldin gerðu allt til þess að við kæmumst ekki á áfangastað (Seyðisfjörð). Fyrst tók að gjósa aðfararnótt sunnudagsins. Flug lagðist af á sunnudeginum. Flogið var eldsnemma á mánudagsmorgninum. Ekkert benti til annars en að Fjarðarheiði væri þá fær og var lagt á heiðina. Kalla þurfti út björgunarsveitina Íslólf til aðstoðar. Björgunarsveitin aðstoðaði í þeirri törn 2 aðra bíla. Sátum við föst í bílnum í 3 klst. Allur mánudagurinn fór í það hjá björgunarsveitinni að aðstoða ökumenn á Fjarðarheiði. Síðasta vika hefur svo boðið upp á það sem að ofan er lýst.
Löngu er tímabært að settar verði samræmdar reglur fyrir landið allt um það hvenær fjallvegir teljist ófærir og hvernig eigi að bregðast við. Lágmark í þessum efnum virðist vera að setja merkingu á leiðbeiningarskilti sitthvorum megin við heiðina þar sem upplýst væri um ástandið uppi. Einhver tregða virðist vera til að viðurkenna þau tilvik þegar ætti með réttu að vera lokað. Upplýsingagjöf V.Í. er heldur ekki mjög markviss eða áreiðanleg í þessum efnum. Eðlilegast væri að veghaldari hefði það hlutverk að loka með slá þeim vegum sem alls ekki eru færir.
Raus þetta er innlegg í umræðuna sem óneitanlega þarf að fylgja baráttu okkar fyrir jarðgögnum. Það eru eflaust fjölmargar svipaðar eða sambærilegar sögur sem fólk hefur að segja af samskiptum sínum við Fjarðarheiði. Hún er einn versti farartálmi íslensks vegakerfis en hefur ekki fengið þá umfjöllun sem vert væri. Á heiðinni hafa orðið fjöldamörg alvarleg umferðarslys og hún hefur nokkur mannslíf á samviskunni. Gefum henni gaum. Göngum göngum. Við viljum göng.
Dægurmál | Breytt 5.1.2011 kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2010 | 16:31
Eldstöðvar, hálendisferðir og framkoma í garð björgunarsveitarfólks
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2010 | 17:10
Göngum Göngum ganga 2. janúar 2010 í tölum.
Göngum Göngum. Gengið var laugardaginn 2. janúar 2009. Lagt var upp frá Herðubreið kl.10.00 og komið í Skíðaskálann í Stafdal ca. kl.11.30. Gengnir voru 8,3 km. Göngutími mælsist 1.32 klst. Meðalhraði var 5.4 km (overall með 14 mínútna stoppi í skála var 4.7 km). Mesti hraði var 18.1 km en þá var hlaupið á undan hópi til að ná mynd. Frost á heiðinni var 9 gráður á Celsíus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2009 | 11:20
Nýja Ísland Gamla Ísland
Mönnum er tíðrætt um nýja Ísland í kjölfar bankahrunsins. Telja ýmsir hið nýja Ísland betra en Ísland og vilja byggja upp á þeim grunni sem hér var fyrir bankahrun. Hrunadansinn mikli en svo kalla ég ástandið eins og það var fyrir hrun og í velgengninni allri var hins vegar með þvílíkum ólíkindum að þess ástands get ég ekki óskað mér. Sá íhaldskurfur sem ég er þá óska ég mér gamla Íslands eins og það var fyrir einkavæðingu bankanna.
Gjört í jólaskapi á aðfangadag á því herrans ári 2009.
Megi allir eiga gleðilega jólahátið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2009 | 18:44
Listsýning. Samstarf Seyðisfjarðarskóla og Skaftfells.
Í dag var opnuð sýning á verkum nemenda Seyðisfjarðarskóla í Skaftfelli Menningarmiðstöð á Seyðisfirði. Um er að ræða samstarfsverkefni menningarmiðstöðvarinnar og skólans. Fjölmenni var við opnunina.
Verk Ingibjargar Lárusdóttur og Hörpu Sigtryggsdóttur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2009 | 10:24
Ganga yfir Fjarðarheiði.
Hópur fólks hefur tekið saman höndum um að vekja athygli á óviðunandi ástandi samgangna við Seyðisfjörð. Í því skyni er efnt til almennrar hópgöngu yfir Fjarðarheiði a.m.k. ársfjórðungslega þar til komin eru jarðgöng sem tengja Seyðfirðinga við önnur byggðalög.
Nú er komið að fjórðu göngunni um þennan hættulega fjallveg yfir Fjarðarheiði. Að þessu sinni verður gengið frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Gangan hefst kl 09:00 við Herðubreið. Hver og einn tryggir sér far heim aftur. Nærsveitamenn eru hvattir til að koma í gönguna og styðja þannig þetta brýna verkefni í samgöngumálum Austurlands.Hver og einn getur gengið eins langan spotta og hann/hún treystir sér til eða hefur áhuga á. Þá geta hjón eða fjölskyldur skipst á að ganga og keyra og þannig hvílst inn á milli. Þeir sem ganga hægt geta t.d. byrjað gönguna við skíðaskálann, á mörkum sveitafélaga eða hvar og hvenær sem er meðan á göngunni stendur. Nærsveitamenn gætu gengið frá Egilsstöðum á móti þeim sem koma frá Seyðisfirði.
§ Fólk þarf að nesta sig sjálft og vera vel búið, á góðum skóm og með góðan skjólfatnað.
§ Gott er að vera í skærlitum fatnaði, s.s. gulu vestunum sjálflýsandi, sem hægt er að kaupa fyrir sanngjarnt verð hjá Ólafíu Stefánsdóttur, sími 472-1434.
Hittumst kát á laugardaginn.
Göngum, göngum hópurinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2009 | 15:28
Þá og nú
Þskj. 773 488. mál.
Tillaga til þingsályktunar
um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni.
Flm.: Gunnlaugur Stefánsson, Gísli S. Einarsson,
Kristján L. Möller, Svanfríður Jónasdóttir.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvaða verkefni er unnt að flytja frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni. Nefndin undirbúi einnig flutning verkefna og stefni þannig að því að gera embættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði.
Greinargerð.
Mjög brýnt er að leita allra leiða til þess að styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni. Það verður m.a. gert með því að efla atvinnulífið og auka fjölbreytni þess. Þar gegnir ríkið miklu hlutverki sem stærsti vinnuveitandi í landinu. Útþensla í starfsemi ríkisins á höfuðborgarsvæðinu hefur m.a. stuðlað að þeirri alvarlegu byggðaröskun sem nú blasir við.
Mikilvægt er að þjónusta ríkisins við fólkið á landsbyggðinni verði styrkt. Flutningsmenn telja að það geti orðið m.a. með því að sýslumannsembættin á landsbyggðinni verði efld með flutningi nýrra verkefna til þeirra frá stjórnsýslustöðvum ríkisins í Reykjavík. Það mundi án efa styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni. Hlutverk nefndarinnar yrði því m.a. að gera tillögur um flutning ákveðinna verkefna.
Telja má víst að slíkar ráðstafanir feli einnig í sér sparnað og hagræðingu fyrir ríkissjóð og styrki um leið þjónustu ríkisins við fólkið í landinu.
Í skýrslu, sem stjórnskipuð nefnd um flutning ríkisstofnana út á land skilaði sumarið 1993, er fjallað m.a. um nauðsyn þess að efla sýslumannsembættin sem stjórnsýslumiðstöð í héraði. Þar segir m.a.:
Á löngum ferli sýslumannsembætta hefur skipan þeirra og hlutverk tekið margvíslegum breytingum í tímans rás, eftir því sem efni og aðstæður hafa krafist. Síðast kom til grundvallarbreyting með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Það hefur skapað ný viðhorf í stjórnsýslu. Fyrri skipan var hemill á eðlilega þróun. Dómsvald í héraði var veikt vegna sambýlis við umboðsvaldið og það leiddi til að minni umboðsstörf voru fengin sýslumönnum í hendur en efni stóðu til. Nú er hins vegar brautin rudd svo að efla megi stjórnsýslu ríkisins í héraði með því að fela sýslumönnum aukin umboðsstörf frá því sem verið hefur.
Verkefni sýslumanna greinast annars vegar í lögreglustjórn, ásamt öðrum störfum við að halda uppi lögum og rétti, og hins vegar í almenn umboðsstörf. Þannig hafa sýslumenn með höndum innheimtu á tekjum ríkissjóðs að því leyti sem hún er ekki falin sameiginlegum gjaldheimtum. Þeir fara og með tollstjórn, hver í sínu umdæmi utan Reykjavíkur, og umboð fyrir Tryggingastofnun ríkisins og umsjón sjúkratrygginga. Á sama hátt mælir ekkert gegn því að sýslumenn geti haft umboð fyrir aðrar ríkisstofnanir eftir því sem nauðsyn krefur til að koma á betri þjónustu og nánari samskiptum en verið hefur við fólkið úti á landi.
Í þessum tilgangi má gera sýslumannsembættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði. Þannig gætu stofnanir ríkisins haft aðgang að sýslumönnum með framkvæmd sinna verkefna. Allt færi þetta samt eftir atvikum. Ríkisstofnanir eru eins mismunandi og þær eru margar. Sumar stofnanir kæmu ekki hér til greina, svo sem þar sem fyrir væri að fara sérstökum umboðsstjórnkerfum, eins og í heilbrigðis- og menntamálum. Stofnanir, sem varða eiginlega stjórnsýslu, kæmu hér til, fremur en þær sem fjölluðu um rannsóknir, ráðgjöf og áætlanagerð. Sömuleiðis væri hér frekar um að ræða stofnanir sem veita einstaklingsbundna þjónustu og útheimta tíð samskipti við þegnana heldur en þær stofnanir sem hafa fremur samskipti stórum og sjaldan við einstaka stjórnsýsluaðila, samtök og fyrirtæki. Allt kemur þetta til skoðunar.
Þessi nýja skipan væri rakin leið til að stuðla að jöfnuði á aðstöðu þegnanna til að njóta þeirrar þjónustu sem ríkisvaldið lætur í té. Verkefni hinna almennu umboðsstofnana yrðu ekki síst fólgin í að miðla upplýsingum, veita fyrirgreiðslu, hafa á hendi afgreiðslu tiltekinna málaflokka og sinna svæðisbundnum viðfangsefnum fyrir hinar einstöku ríkisstofnanir. Ef til vill gætu slík viðfangsefni verið leyst af hendi að meira eða minna leyti með samræmingu og hagræðingu á öðrum störfum á sýsluskrifstofum, svo að hvorki kæmi til aukinn mannafli né húsnæði. Þar sem þetta kæmi ekki til gætu aukin umsvif, svo sem í sérhæfðum mannafla og tilheyrandi aðstöðu, haft í för með sér umtalsverðan kostnað. Er þá eðlilegt að hann sé greiddur af þeim stofnunum sem góðs njóta af, hliðstætt því sem gerist um önnur umboðsstörf sem sýslumenn fara nú með. Í þeim tilfellum þar sem stofnanir hafa sértekjur hljóta að gilda sömu reglur um útselda þjónustu, hvort heldur er í höfuðstöðvum eða hjá almennum umboðsstofnunum. En höfuðmáli skiptir að hin nýja skipan felur í sér hagkvæma og sveigjanlega aðferð til úrlausnar, eftir því sem efni og ástæður standa til hjá hverri stofnun. Um framkvæmd alla verður svo að mæla fyrir með almennri lagaheimild og reglugerðum, eftir því sem við á.
Hér er ekki einungis um að ræða að flytja verkefni til umboðsvaldsins í héraði frá stofnunum ríkisins, heldur einnig frá sjálfum ráðuneytunum. Þar kæmu ekki síst til greina leyfisveitingar ýmiss konar, úrskurðarvald í vissum málum, margháttuð eftirlitsstörf og annað sem varðar eiginlega stjórnsýslu og betur á heima hjá svæðisbundnu umboðsvaldi í héraði en í miðstýringu stjórnarráðsins.
Þessi skipan breytir engu um stöðuheiti og hlutverk sýslumanns við lögreglustjórn og meðferð skyldra mála. Sýslumenn heyra stjórnsýslulega undir dómsmálaráðherra, en lúta öðrum ráðherrum að því leyti sem þeir fara með mál sem ekki heyra undir dómsmálaráðherra.
Allir stjórnmálaflokkar þá á Alþingi áttu aðild að nefndinni og stóðu sameiginlega að áliti hennar. Eins og tilvitnunin hér að framan sýnir mætti flytja margvísleg störf til sýslumannsembættanna. En mikilvægast er að þessi störf fela í sér þjónustu við landsbyggðarfólk sem stýrt væri heima í héraði og væri nær fólkinu en nú er.
Tillaga til þingsályktunar sama efnis var lögð fram á 117. löggjafarþingi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.4.2009 | 07:18
Göng(um) göng(um) hópurinn
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)