Færsluflokkur: Dægurmál
3.2.2008 | 17:17
Allt á kafi í snjó.
Dægurmál | Breytt 10.2.2008 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2008 | 20:37
Af gæsaveiðum á Dratthalastöðum
Nú skal frá því greint þegar ég fór ásamt vinnufélögum á gæsaskytterí að Dratthalastöðum í Norður-Múlasýslu. Það var að áliðnu hausti að Helgi Jensson sem þá var fluttur til héraðs frá Seyðisfirði hafði samband við okkur vinnufélagana og sagði að hann hefði fengið leyfi til að skjóta gæsir í túninu að Dratthalastöðum. Fórum við fjórir saman ég, Jói, Jónas og Helgi um þrjú leytið að nóttu áleiðis að Dratthalastöðum. Þegar við komum í hlaðið á Dratthalastöðum einhvern tíma um hálf fimmleytið var þar svartamyrkur og þoka yfir. Fannst okkur borgardrengjunum mér og Jóa, að það væri reykjarlykt í lofti og tjáðum okkur um það við sveitamennina Helga og Jónas. Helgi tjáði okkur þá að þegar hann hefði komið deginum áður að biðja um leyfi hefði bóndinn verið að reykja "selung". Létum við þetta gott heita og gengum niður bæjarhólinn í átt til skurða nokkurra í svo sem 500-700 metra fjarlægð frá bænum. Sá var háttur á gæsaveiðitúrum órum í þá tíð, að Helgi, sem er okkar frómust gæsaskytta, sagði okkur hvenær ætti að grúfa og hvenær að reisa upp höfuð, munda byssu og skjóta. Gekk nú á þessu fram á morgun að tekur að birta. Verður Jóa þá á orði hvað honum þyki undarlegt, að leyst hafi upp þokuna alls staðar, nema í kring um bæinn. Helgi kvað það engum undrum sæta og myndi þetta enn stafa af reykingum bónda. Leið svo nokkur stund. Að klukkustundu liðinni þótti mér undarlegt hversu umferð hafði aukist um hlaðið á Dratthalastöðum og hafið orð á þessu við foringja vorn. Hann kvað þetta alsiða, að bændur hittust að morgni dags hver hjá öðrum, tækju veðrið og fengju sér kaffi og með því. Enn grúfðum við og biðum gása. Gátum við þó ekki orðabundist þegar slökkviliðsbíllinn af Egilsstöðum ásamt Baldri Pálssyni, slökkviliðsstjóra og liði hans birtist á bæjarhellunni. Kunni foringinn þá ei lengur neinar skýringar á upphlaupi þessu. Drógumst við síðan á lappir og nálguðumst mannmergð þá sem orðin var á hlaðinu, heldur skömmustulegir og niðurlútir. Það mátti foringi vor eiga að hann tók að góðum sveitasið drjúgan þátt í slökkvistarfinu, en við borgardrengirnir forðuðum okkur í farskjóta vorn og höfum ekki sóst eftir gæsaveiðileyfum að Dratthalastöðum síðan. Hafði þarna kviknað í hlöðunni út frá súrheyi og eldurinn kraumað allt frá því kvöldinu áður.
Dægurmál | Breytt 8.9.2014 kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2008 | 18:43
Þorrablót 2008
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2008 | 10:57
Góð mæting var á stofnfund Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Seyðisfirði
Fundarsalurinn í Herðubreið var þéttsetinn fólki á stofnfundi Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Seyðisfiðri í gær. Lög félagsins voru samþykkt með lítilsháttar orðalagsbreytingum. Stofnfélagaskrá er opin og gefst fólki kostur á að skrá sig á lista sem liggur frammi í Sparkaupum á Seyðisfirði. Skorað er á alla velunnara Sjúkrahússins að gerast félagsmenn í félaginu. Árgjald var ákveðið kr.1.500.-
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2008 | 11:51
Stofnfundur hollvinasamtaka til stuðnings Sjúkrahúsinu á Seyðisfirði
Næst komandi fimmtudag 24. janúar verður haldinn fundur í íþróttasalnum í félagsheimilinu Herðubreið til stofnunar hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Seyðisfirði. Fundurinn hefst kl.17.00 og er ráðgert að hann standi til kl.18.30. Þar mun Þorvaldur Jóhannsson flytja ávarp, fjallað verður um sögu og starfsemi sjúkrahússins, drög að lögum félagsins kynnt og kosið í stjórn. Að loknum stofnfundi veða léttar veitingar samhliða skráningu hollvina. Fundarstjóri verður Adolf Guðmundsson.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2008 | 20:39
Grein úr Vesturlandi. Árin mín á Ísafirði.
Upphafið
Á vormánuðum árið 1984 réði ég mig til starfa sem fulltrúi hjá sýslumanni Ísafjarðarsýslna og bæjarfógetanum á Ísafirði. Ég hafði nýlokið embættisprófi í lögfræði og eins og tíðkaðist í þá daga var um tvennt að velja að loknu námi, að fá inni á lögmannsstofu, eða leita á náðir ríkisjötunnar. Þar sem ég átti engin tengsl við lögmannastétt ákvað ég að skrá mig hjá dómsmálaráðuneytinu sem væntanlegur landshornaflakkari. Tveir sýslumenn höfðu samband, þeir Pétur Kr. Hafstein og Friðjón Guðröðarson og vildu reyna gripinn. Ekki leist mér meira en svo á að fara að hrella frændur mína í Austur-Skaftafellssýslu. Það var ólán Ísfirðinga.
Móttökurnar
Til Ísafjarðar höfðum við Hrafnhildur aldrei komið er við lentum á Ísafjarðarflugvelli í byrjun maí. Vinur okkar og félagi Ólafur K. Ólafsson sótti okkur inn á flugvöll á forláta BMW, sem sýslumaður átti og þaðan lá leiðin á skrifstofuna til Péturs. Svava dóttir okkar hjóna, sem þá var 3 ára, var með handtösku, bláa, gerða af pappa, og hafði afi hennar búið hana út með hálffulla töskuna af Smartís. Í miðjum kynningum á skrifstofu sýslumanns sturtaði stelpan öllu Smartísinu á gólfið og varð uppi fótur og fit við að leysa það mál. Lauk svo fundi þessum að okkur var vísað á húsnæði í Hnífsdal og hófust störf undirritaðs á að koma fjölskyldunni fyrir að Ísafjarðarvegi 2, Hnífsdal.
Fólkið
Strax í byrjun búskapar á Ísafjarðarvegi varð ljóst að ekki yrði aftur snúið úr hremmingum þessum. Engin var sturta í íbúðinni og baðkarið stíflað. Hófst nú leit að stíflueyði og eftir miklar hringingar í símaskrá fannst vænleg verslun sem bar nafnið Rörverk ef mig brestur ekki minni. Húsbóndinn fór af stað og steðjaði í Fjarðarstræti hvar verslunin átti að vera til húsa. Við eftirgrennslan kom í ljós að fyrirtækið hafði flutt sig um set og var sagt á hafnarsvæðinu. Verslunin fannst fyrir rest og var þar yfirstandandi kokteilpartý í tilefni af opnun. Undirritaður fór um alla verslun og leitaði að stíflueyði án árangurs. Loks fannst maður merktur fyrirtækinu og var erindið borið upp. Ekki áttu þeir stíflueyði. Innti ég þá eftir því hvort til væru drullusokkar. "Jú", sagði viðmælandinn, "hér er allt fullt af þeim eins og þú sérð, en þeir eru ekki til sölu". Þetta voru fyrstu kynnin af Ísfirðingum.
Vinnan
Fyrsti vinnudagurinn líður mér seint úr minni. Fyrir lá að fara til Flateyrar til að selja fasteign á uppboði. Föruneyti uppboðshaldara samanstóð af honum sjálfum, mér, votti sem ég man ekki lengur hver var og Tryggva Guðmundssyni, héraðsdómslögmanni. Tryggvi flaug með okkur yfir Breiðadalsheiðina í Wolksvagen Passat bifreið. Ég veit ekkert hvernig ég var á litinn þegar við lentum á Flateyri (sennilega grænn), en sýslumaðurinn var hvítur eins og marmarastytta. Eftir þessa lífsreynslu urðu allar fjallaferðir þaðan í frá hjóm eitt. Annars var unnið frá 8-19 flesta daga og stundum lengur og eitthvað um helgar. Minnist þess t.a.m. að hafa hlaupið úr 17. júní skrúðgöngu til að kveða upp úrskurð þegar andinn kom yfir mig eitt árið. Mikil ferðalög um erfiða fjallvegi fylgdu vinnunni. Einhverju sinni lagði ég upp kl.8.30 til Súgandafjarðar með Tómas Þorvaldsson hdl. í farteskinu á mínum ágæta Fiat 127 árg. 1983 (eða svo). Sýsluðum við á Súganda það er þurfti og lögðum svo á heiðina. Bílinn urðum við að skilja eftir uppi á Botnsheiði vegna ófærðar. Komumst við illan leik til manna í Botni. Fengum svo far með skurðgröfu með vörubíl í eftirdragi upp á heiðina á nýjan leik. Að endingu bjargaði svo lögreglan okkur og vorum við komnir til Ísafjarðar laust fyrir miðnætti eftir mikinn skakstur í ófærð og vitlausu veðri. Ísfirðingar eru blessunarsamlega að mestu lausir við slík ævintýri eftir að göngin komu.
Bílakostur
Ýmislegt skondið og skemmtilegt kom upp á þeim tæplega 4 árum sem við bjuggum á Ísafirði. Bílalán voru ekki komin til sögunnar á þessum árum og var bifreiðaeignin eftir því. Höfðum við haft með okkur forláta Fiat 127 árgerð 1971 vestur. Einhverju sinni var það að við ákváðum að fara í bíó í Alþýðuhúsinu hjónin. Bíllinn var með þeim ósköpum að aðeins var hægt að aka honum í 3ja gír. Þurfti því að hafa sig allan við að ýta honum af stað og stökkva uppí á ferð. Ekki voru því tök á að stoppa fyrir puttalingi sem var á vappi undir Eyrarhlíðinni og brenndum við framhjá honum. Hann hefur sennilega fengið far skömmu síðar. Alla vega lenti hann í sæti við hlið mér í kvikmyndahúsinu. Ég vatt mér að honum, skýrði málið og bauð honum far til baka. Hann þáði farið, en hefur sennilega séð eftir því þegar hann var búinn að ýta bílnum út að pípuhliði. Tilraun var gerð til að enda lífdaga bifreiðar þessarar á basar ellegar tombólu, en hún gekk ekki út og var að endingu jarðsett í Neðsta kaupstaðar kirkjugarði.
Að kunna að þegja
Embættismenn eru eins og allir vita bundnir þagnarskyldu og eiga margir bágt með að hemja sig. Viðskiptamennirnir eru hins vegar ekki undir þessa sök seldir hvað eigin mál varðar og geta stundum komið upp pínlegar aðstæður vegna þessa. Einhverju sinni var ég staddur úti í sjoppu að kveldi dags og stóð aftast í röðinni, þegar einn viðskiptavinur embættisins, sem var kominn að því að fá afgreiðslu kemur auga á mig og kallar stundarhátt yfir mannfjöldann í sjoppunni: "Heyrðu þú þarna! Hvenær kemur sakaskráin mín?" Ég leit upp í loftið og reyndi að eyða talinu. Kallar hann þá aftur, enn hærra en áður: "Heyrðu þú þarna fulltrúi, ég er að sækja um bílpróf. Geturðu ekki svarað maður. Hvenær kemur sakaskráin mín. Ég er búinn að bíða í 2 vikur!" Undan þessu varð ekki vikist og kom svarið að endingu með nokkurri tregðu þó: "Ætli megi ekki búast við henni eftir svo sem þrjár vikur? Þeir eru að binda hana inn hjá Gutenberg." Almennt má segja um Ísfirðinga að uppákomur sem þessar voru fátíðar.
Félagslífið
Frændi minn Rúnar Guðbrandsson var á Ísafirði um líkt leiti og ég. Hann narraði mig til að ganga til liðs við Litla-leikklúbbinn. Tók ég þátt í uppsetningu á leikritinu "Þið munið hann Jörund". Var þar í hlutverki Trampe greifa. Kynntist ég þar mörgu góðu fólki. Þess utan var farið á skíði upp á Seljalandsdal og á sumrin í "skógarferðir" með vinum okkar Láru og Óla inn í Tungudal. Tryggvi og Þórunn vinafólk okkar buðu okkur einhverju sinni á þorrablót brottfluttra Slétthreppinga og Grunnvíkinga. Skemmtan var þar góð og kom í góðar þarfir að hafa kynnst þessari hlið þjóðlífsins, þegar kom að því síðar meir að halda 350 manna þorrablót fyrir Seyðfirðinga. Eru þá ótaldar allar frábæru stundirnar sem við áttum með vinum okkar Ingu og Gilla.
Fjölgun
Hinn 5. janúar 1986 fæddist okkur hjónum sonur (piltbarn eins og sagði í bæjarblaðinu) var vatni ausin og gefið nafnið Árni Geir. Hann mun hafa verið fyrsti Ísfirðingurinn á því herrans ári 1986.
Allsnægtir
Í minningunni er svo merkilegt að mér finnst hafa verið tvennt af öllu á Ísafirði. Það voru 2 sjoppur, 2 myndbandaleigur, 2 skemmtistaðir (svona nokkurn veginn eftir því hvernig talið er), 2 skóbúðir, 2 bakarí, 2 verslanir og 2 ríki þ.e. ÁTVR og Slunkaríki.
Fjölskyldan
Af mér og minni fjölskyldu er allt gott að frétta. Ingibjörg bættist í hópinn hinn 17. október 1994. Svava er í sambúð með Andra og eiga þau saman Val sem er eins og hálfs árs gamall. Þau búa á Seyðisfirði. Árni Geir á kærustu sem heitir Halldóra Malin. Þau eru í námi í Danmörku. Við lifum góðu lífi á Seyðisfirði-Eystra og eigum árum okkar á Ísafirði það að þakka að vilja helst búa úti á landi. Kostir þess eru vanmetnir.
Biðjum fyrir bestu kveðjur til allra sem vilja þekkja okkur fyrir vestan.
Seyðisfirði, 4. desember 2007.
Lárus Bjarnason
Dægurmál | Breytt 22.1.2008 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 14:34
Fræðslunet Austurlands tekur í notkun fjarfundabúnað á Seyðisfirði.
