Færsluflokkur: Umhverfismál
15.1.2014 | 10:04
Saga úr seinni heimsstyrjöldinni.
Einhvern tíma á árum seinni heimsstyrjaldarinnar voru þeir Bjarni Þorgeir Bjarnason, gullsmíðameistari og Bjarni Hinriksson, listmálari þá ungir menn um tvítugt á gangi eftir sveitavegi í Hornafirði. Sáu þeir hvar þýzk sprengjuflugvél kom fljúgandi af hafi inn fjörðinn. Ekki alls fjarri þar sem gönguleið þeirra lá var hermannabraggi og skúr sem í var loftvarnarbyssa til að verjast árásum þýzka flughersins. Þeir vinirnir hertu gönguna og hugðust vara setuliðið við yfirvofandi árás. Hermennirnir hafa orðið varir við flugvélina því allt í einu þustu fjölmargir hermenn út úr bragganum á nærklæðum einum fata. Hlupu sumir sem leið lá að skúrnum þar sem loftvarnarbyssan var en aðrir eigruðu um eins og fiðurfénaður og var mikið uppnám í liðinu. Flugvél hinna þýðverzku flaug yfir þá félaga þar sem þeir höfðu hent sér ofan í skurð. Sáu þeir glitta í einkennismerki skyttunar sem sat í skotturni flugvélarinnar og svo nálægt flaug hún að þeir gátu greint hnoðin á hliðum hennar er hún tók sveiginn yfir Ketillaugarfjallið. Tók hún þar sveig og flaug aftur út fjörðinn. Er þjóðverjarnir voru yfir herbúðum setuliðsins vörpuðu þeir sprengjum sínum. Þeir Bjarnarnir sáu tvær sprengjur koma frá flugvélinni. Lentu þær báðar í mýrinni næst bragganum og skúrnum með loftvarnarbyssunni. Önnur sprengjann sökk í mýrina en hin sprakk í yfirborði hennar. Þeyttist á loft ógrynni af moldardrullu sem lenti á bragganum en þó einkum á loftvarnarskýlinu. Flugvélin flaug út fjörðinn og hvarf sjónum þeirra félaganna og hermannanna eftir mislukkaða loftárás. I fyrstu var allt með kyrrum kjörum en um það bil fjórum mínútum eftir að sprengjunum var varpað tók að braka og bresta í skúrnum. Hermennirnir sem tekið höfðu sér stöðu við loftvarnarbyssuna en ekki komið að skoti komu hlaupandi út úr þessu merkilega mannvirki og áttu fótum fjör að launa. Fór svo að lokum að skúrbyggingin seig hægt og rólega á hliðina og lagðist að lokum alveg saman. Lauk þannig þessari velheppnuðu loftárás í Hornafirði.
Bjarni Hinriksson mun hafa teiknað upplifun sína af atburði þessum en teikningin hefur því miður glatast.
Skráð eftir munnlegri frásögn Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar í slævðri minningu ritara.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)