28.3.2010 | 16:31
Eldstöðvar, hálendisferðir og framkoma í garð björgunarsveitarfólks
Las á MBL.is grein um ferðalag Jóns Gunnars Benjamínssonar upp að eldstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Frábært afrek hjá Jóni sem er lamaður að leggja í þessa ferð og komast fram og til baka heill á húfi. Hann þakkar góðum útbúnaði og klæðnaði að hann komst þetta óskaddaður og telur að hann hefið sennilega kalið ef hann hefði ekki verið svona vel búinn. Þá bendir hann á að við eldstöðvarnar hefi verið fólk sem hefði verið bæði illa búið og drukkið í ofan á lag. Nokkrir bloggarar fjalla um slíkt háttalag og velta m.a. fyrir sér hvort þetta sé kynslóðareinkenni og þá einkum með tilliti til framkomu í garð björgunarsveitarmanna og annarra sem fara með öryggismál. Þetta virðist vera eitthvert "trend" um þessar mundir að margir af yngri kynslóðinni líti á sig sem heilagar verur sem ekki megi stugga við eða hafa nokkurn aga á. Þetta kemur m.a. mjög skýrt fram í samskiptum lögreglu við marga af nefndri kynslóð (fólk á aldrinum 20-40 ára var nefnt til sögu). Nú er það vitanlega svo að ekki eru allir af þessari kynslóð undir þá sök seldir og hinir fáu koma óorði á þá sem haga sér í alla staði vel. Hitt hefi ég orðið var við að stór hluti ungmenna virðist a.m.k. undir áhrifum áfengis ekki virða leikreglur samfélagsins varðandi umgengni og framkomu í garð þeirra sem fara með eftirlitshlutverk og halda uppi öryggi. Björgunarsveitarmenn sem eru sjálfboðaliðar og leggja á sig ómælt erfiði við að bjarga okkur þegar við lendum í ógöngum eiga betra skilið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.