Göngum göngum ganga. Herðubreið laugardaginn 3. apríl kl.10.00. Allir velkomnir

Fyrirhuguð er ársfjórðungsleg "Göngum göngum" ganga laugardaginn 3. apríl 2010. Lagt verður upp frá félagsheimilinu Herðubreið kl.10.00 Vegna snjóþunga á heiðinni og snjóganga er óvarlegt að ganga yfir háheiðina og mun því verða gengið upp að skíðaskálanum í Stafdal. Þar mun verða hægt að kaupa veitingar (kaffi, kakó og vöflur). Allir eru hvattir til að mæta og leggja þessu góða málefni lið, en tilgangurinn með göngunni er að vekja athygli á nauðsyn jarðganga til Seyðisfjarðar og að koma bænum okkar í almennilegt vegasamband við umheiminn.

Alla síðustu viku hefur verið ýmist þungfært, þæfingur, lélegt skygni eða hreinlega ófært yfir Fjarðarheiði og í morgun var viku afmæli þessa ástands. Síðast liðinn mánudag kom undirritaður úr fundarferð frá Reykjavík, ásamt eiginkonu, dóttur og dóttursyni. Máttarvöldin gerðu allt til þess að við kæmumst ekki á áfangastað (Seyðisfjörð). Fyrst tók að gjósa aðfararnótt sunnudagsins. Flug lagðist af á sunnudeginum. Flogið var eldsnemma á mánudagsmorgninum. Ekkert benti til annars en að Fjarðarheiði væri þá fær og var lagt á heiðina.  Kalla þurfti út björgunarsveitina Íslólf til aðstoðar. Björgunarsveitin aðstoðaði í þeirri törn 2 aðra bíla. Sátum við föst í bílnum í 3 klst. Allur mánudagurinn fór í það hjá björgunarsveitinni að aðstoða ökumenn á Fjarðarheiði. Síðasta vika hefur svo boðið upp á það sem að ofan er lýst.

Löngu er tímabært að settar verði samræmdar reglur fyrir landið allt um það hvenær fjallvegir teljist ófærir og hvernig eigi að bregðast við. Lágmark í þessum efnum virðist vera að setja merkingu á leiðbeiningarskilti sitthvorum megin við heiðina þar sem upplýst væri um ástandið uppi. Einhver tregða virðist vera til að viðurkenna þau tilvik þegar ætti með réttu að vera lokað. Upplýsingagjöf V.Í. er heldur ekki mjög markviss eða áreiðanleg í þessum efnum. Eðlilegast væri að veghaldari hefði það hlutverk að loka með slá þeim vegum sem alls ekki eru færir.

Raus þetta er innlegg í umræðuna sem óneitanlega þarf að fylgja baráttu okkar fyrir jarðgögnum. Það eru eflaust fjölmargar svipaðar eða sambærilegar sögur sem fólk hefur að segja af samskiptum sínum við Fjarðarheiði. Hún er einn versti farartálmi íslensks vegakerfis en hefur ekki fengið þá umfjöllun sem vert væri. Á heiðinni hafa orðið fjöldamörg alvarleg umferðarslys og hún hefur nokkur mannslíf á samviskunni. Gefum henni gaum. Göngum göngum. Við viljum göng.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband