1.7.2010 | 12:11
Helvítis maðurinn........
Einu sinni sem oftar fórum við Ísleifur Tómasson vinur minn austur í sveitir á sveitaball. Þetta var einhvern tíma hinum megin við síðustu aldamót (1974 sennilega). Ferðinni var heitið að Heylæk í Fljótshlíð hvar fjölskylda hans átti jörð. Sveitaball var í sigtinu á Hvolsvelli og af því tilefni höfðum við eins og svo oft áður fengið lánaðan Landroverinn hjá Tómasi pabba hans Ísleifs. Ég var vanur að aka um á Ford Capri ´71 árg. og fannst því ferðalagið yfir Hellisheiðna frekar langdregið. Ísli ók á sínum 40 km hraða á klst. og vissi ég reyndar aldrei hvort bílinn komst mikið hraðar en þetta var eins og Krúskontról þeirra tíma 40 km/klst. og ekki fet hraðar. Við spjölluðum saman á leiðinni eins og okkar var vandi. Ég talaði og hann hlustaði. Eitthvað skaut hann inn setningu og setningu en hugur hans var við aksturinn eins og vonlegt var á þessari líka ferðinni. Ég reykti á þessum árum og Ísli líka. Þar sem við sátum þarna í bílnum og spjölluðum lét ég dæluna ganga og keðjureykti á meðan Ísleifur einbeitti sér að akstrinum og dásamaði materialið og fegurð lífsins. Ferðin tók um það bil 3 klst. og enn var blaðrað og ég sat og reykti og Ísleifur varð stöðugt þyngri á brúnina og sagði þeim mun færra, sem lengra leið á ferðina. Þegar við loksins komum í hlaðið á Heylæk sagði hann stundarhátt, en meira eins og við sjálfan sig en mig: " Helvítis maðurinn - tímir ekki að gefa mér sígarettu!"
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.