Mikil umferð um hættulegan veg
Fimmtudagsmorgnar eru engir venjulegir morgnar á Fjarðarheiði. Í morgun fóru næstum níu hundruð bílar yfir heiðina og var hver fermetri malbiks vel nýttur. Bílarnir koma úr Norrænu en ferðir hennar til Seyðisfjarðar gera það að verkum að Fjarðarheiði er skilgreind sem hluti af þjóðvegakerfi Evrópu, eða svokallaður TERN vegur líkt og hringvegurinn og nokkrir aðrir vegir hér á landi.
En þó að vegurinn um Fjarðarheiði sé malbikaður þykir hann mjór og hættulegur. Eftir slæma útreið Hvalfjarðarganga í nýlegri skýrslu hafa Seyðfirðingar dustað rykið af slysaskýrslu EuroRap frá árinu 2008. Þar var Fjarðarheiðin dæmd einn hættulegasti hluti af svokölluðum Tern-vegum á Íslandi. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar vill minna á að vegurinn yfir Fjarðarheiði hafi komið illa út; hliðar vegarins fái aðeins tvær stjörnur af fimm fyrir öryggi. Í skýrslunni sé bent á að vegurinn yfir Fjarðarheiði sé mjög hár og brattir fláar á honum nánast alla leið. Á sérstöku slysakorti Euro RAP sem byggt er á slysasögu fái Fjarðarheiði aðeins eina stjörnu. Leiðin sé með öðrum orðum skilgreind sem einn hættulegasti vegur landsins.
Seyðfirðingar telja að vegna þess hve vegurinn liggur hátt séu jarðgögn eina lausnin til framtíðar. Á veturna er Fjarðarheiðin mjög erfið í hálku og það þekkja þeir sem þurfa að flytja vörur um heiðina. Sigfinnur Mikaelsson, framkvæmdastjóri Smyril Blue Line, bendir á að Fjarðarheiðin sé eina tenging íslenskra vega við vegakerfi Evrópu og að vegna þess hve vegurinn liggur hátt séu jarðgöng eina lausnin.
frettir@ruv.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.