4.1.2012 | 15:17
Göngum göngum ganga fyrsta laugardag í hverjum ársfjórðungi.
Næstkomandi laugardag 7. janúar 2012 á skv. hefð að ganga yfir Fjarðarheiði fyrir jarðgöngum. Undirritaður sem tekið hefur þátt í þessu framtaki til að vekja athygli á jarðgöngum til Héraðs frá Seyðisfirði frá upphafi átaksins er nú kominn að fótum fram eftir að jarðgöngin komust ekki einu sinni inn á samgönguáætlun. Hefi ég því ákveðið að vekja athygli á þessu góða málefni með því að ganga ekki yfir Fjarðarheiði og fara þannig í gönguverkfall í mótmælaskyni. Einhverjum kann að finnast þetta undarlegt, en mín tilfinning er sú að það veki álíka mikla athygli ráðamanna að sitja á sínum feita rassi og gera ekki neitt eins og að príla þetta ársfjórðungslega yfir heiðina. Til að bæta mér þetta upp mun ég ganga á öðurm tímum á önnur fjöll og hunsa Fjarðarheiði eftir megni.
Fór reyndar í gær með fjölskylduna til að líta á glænýtt barnabarn mitt sem fæddist í gærnótt á Norðfirði. Þurfti ég að fara um 3 fjallvegi sem voru hver öðrum torfærari (snjóblinda og bylur) og þurfti ítrekað að stöðva bifreiðina þar sem skyggni var ekkert. Þetta eykur hættuna á að ekið sé á mann því ýmsir ökumenn skirrast ekki við að aka áfram í snjókófi þótt ekki sjái á milli augna. Hendi þessu hér inn sem áframhaldandi umræðu um nauðsyn á jarðgangagerð hér fyrir austan.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.