5.3.2012 | 18:25
Minningabrot úr Kópavogi
Rauði rassinn og önnur leynifélög
Mikið var um bardaga í hverfinu í gamla daga (Auðbrekka og nágrenni). Eins og áður er komið fram stálum við strákarnir oft og tíðum efniviði í vopn og verjur úr nærliggjandi trésmíðaverkstæðum án teljandi samviskubits. Mjög vinsælt var að útbúa skildi úr lokum af pappatunnum, sem notaðir voru undir afgangs timbur, lista og því um líkt. Voru lok þessi þannig gerð að járnhringur var utan um mjög þykkan pappa. Skjöldur var síðan útbúinn þannig að 4 göt voru boruð í pappann og þrætt snæri í gegnum götin og voru þá fengin handföng á skjöldinn.
Leyni og bardagafélög voru mörg í Kópavogi og lentum við krakkarnir í hverfinu einhvern tíma í því að innrás var gerð í hverfið af gengi ofan af Digranesvegi. Þrátt fyrir vopnleysi náðum við fljótt yfirhöndinni í bardaganum og eins og tíðkaðist tókst okkur að lemja einn skjöldinn sem áður var lýst svo vendilega utan um hönd eins árásarmannsins að hann mun því seint gleyma. Rákum við lið þetta á flótta upp hæðina á móts við nr. 19 í Auðbrekku með öskrum og ópum sem hækkuðu að mun þegar skarexi kom fljúgandi í fallegum boga úr miðjum óvinahernum og lenti á miðju enninu á Bigga Stóra. Skipti engum togum að Biggi steinlá og urðum við að bera hann heim og var hann umsvifalaust sendur á slysavarðstofuna (Gamla heilsuverndarstöðin), sem í þá daga var ein aðalstofnunin fyrir unga drengi. Áttu reyndar ýmsir erindi þangað vegna annarra og merkilegri rauna á unglinsárum og verða engin nöfn nefnd í því sambandi önnur en stofnunarinnar. Löngu seinna eða nánar tiltekið um haustið eftir þennan atburð komst ég að raun um að ég sat í bekk með einum innrásaraðilanum, sem reyndist bróðir þess er kastaði skaröxinni. Bekkjarfélaginn hét Hafþór Sævaldsson og bróðirinn Þór og er það haft fyrir satt að afi þeirra hafi gert við net. Tókst með okkkur ágætis kunningskapur. Ekki liggur fyrir hvað leynifélag þeirra bræðra hét.
Rauði rassinn var annað leynifélag talið eiga heimili í holtinu við Kópavogskirkju. Fór miklum sögum af grimmd félagsmanna í Rauða rassinum. Kvað svo stíft að þessum sögum að allir strákar í hverfinu okkar í austurbænum forðuðust að vera einir á ferð um kirkjuholtið og er til marks um þessa hræðslu að flestir sóttu sund í Sundhöll Reykjavíkur, en sneyddu hjá Sundlaug Kópavogs lengi vel. Aldrei lenti ég í Rauða rassinum og hvarf mér öll hræðsla við það hræðilega félag þegar ég hóf að sækja fótboltaæfingar- og leiki á Vallagerðisvöll.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.