30.1.2008 | 20:37
Af gæsaveiðum á Dratthalastöðum
Nú skal frá því greint þegar ég fór ásamt vinnufélögum á gæsaskytterí að Dratthalastöðum í Norður-Múlasýslu. Það var að áliðnu hausti að Helgi Jensson sem þá var fluttur til héraðs frá Seyðisfirði hafði samband við okkur vinnufélagana og sagði að hann hefði fengið leyfi til að skjóta gæsir í túninu að Dratthalastöðum. Fórum við fjórir saman ég, Jói, Jónas og Helgi um þrjú leytið að nóttu áleiðis að Dratthalastöðum. Þegar við komum í hlaðið á Dratthalastöðum einhvern tíma um hálf fimmleytið var þar svartamyrkur og þoka yfir. Fannst okkur borgardrengjunum mér og Jóa, að það væri reykjarlykt í lofti og tjáðum okkur um það við sveitamennina Helga og Jónas. Helgi tjáði okkur þá að þegar hann hefði komið deginum áður að biðja um leyfi hefði bóndinn verið að reykja "selung". Létum við þetta gott heita og gengum niður bæjarhólinn í átt til skurða nokkurra í svo sem 500-700 metra fjarlægð frá bænum. Sá var háttur á gæsaveiðitúrum órum í þá tíð, að Helgi, sem er okkar frómust gæsaskytta, sagði okkur hvenær ætti að grúfa og hvenær að reisa upp höfuð, munda byssu og skjóta. Gekk nú á þessu fram á morgun að tekur að birta. Verður Jóa þá á orði hvað honum þyki undarlegt, að leyst hafi upp þokuna alls staðar, nema í kring um bæinn. Helgi kvað það engum undrum sæta og myndi þetta enn stafa af reykingum bónda. Leið svo nokkur stund. Að klukkustundu liðinni þótti mér undarlegt hversu umferð hafði aukist um hlaðið á Dratthalastöðum og hafið orð á þessu við foringja vorn. Hann kvað þetta alsiða, að bændur hittust að morgni dags hver hjá öðrum, tækju veðrið og fengju sér kaffi og með því. Enn grúfðum við og biðum gása. Gátum við þó ekki orðabundist þegar slökkviliðsbíllinn af Egilsstöðum ásamt Baldri Pálssyni, slökkviliðsstjóra og liði hans birtist á bæjarhellunni. Kunni foringinn þá ei lengur neinar skýringar á upphlaupi þessu. Drógumst við síðan á lappir og nálguðumst mannmergð þá sem orðin var á hlaðinu, heldur skömmustulegir og niðurlútir. Það mátti foringi vor eiga að hann tók að góðum sveitasið drjúgan þátt í slökkvistarfinu, en við borgardrengirnir forðuðum okkur í farskjóta vorn og höfum ekki sóst eftir gæsaveiðileyfum að Dratthalastöðum síðan. Hafði þarna kviknað í hlöðunni út frá súrheyi og eldurinn kraumað allt frá því kvöldinu áður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.