11.5.2008 | 18:30
Smá skemmtisaga úr Kópavogi frá árunum upp úr 1960.
Hurðariðja Sigurðar Elíassonar
Það var mikil tíska á þessum árum að laumast inn í port hjá hurðasmiðju Sigurðar Elíassonar, sem stóð yst í Auðbrekkunni og hefur sennilega verið nr. 2 í þeirri ágætu götu. Portið var girt af með mikilli bárujárnsgirðingu. Að hluta til var girðing þessi notuð sem útveggur á yfirbyggðri timburgeymslu, sem var opin í sjálfu portinu og var því nokkurn vegin eins mannvirki og stúka á fótboltavelli. Við strákarnir þurftum mikið á timbri að halda á þessum árum og ef við fengum efniviðinn ekki gefins á nærliggjandi verkstæðum, sem voru mjög mörg, urðum við að taka hann ófrjálsri hendi. Mest spennandi var auðvitað að nálgast efnið þar sem mest var gæslan og gilti þar sama reglan og varðandi aðra hrekki, að þeim mun meira sem þeir fengu á fórnarlambið þeim mun meira fengum við út úr þeim. Hjá Sigurði Elíassyni var sem sagt mikið lagt upp úr því að verja timbrið og má segja að það hafi verið gagnvarið. Tvær leiðir voru vænlegar til að komast inn í portið. Annars vegar mátti læðast inn um hliðið, sem sneri upp í Auðbrekkuna eða klifra upp á þakið á timburskýlinu og þaðan niður í portið. Var það svo einhverju sinni að við Skari, Mummi (Guðmundur Jónson Vídalín), Hreiðar Kárason og ég fundum hjá okkur hvöt til að sækja efnivið í sverð og skildi í þessa víggirtu geymslu. Klifruðum við yfir girðinguna og vorum að rótast í timburbirgðunum þegar verkstjórann bar að garði. Skipti engum togum að þeir félagar mínir tóku á sprett og náðu þeir Skari og Mummi að klifra upp á þakið aftur en Hreiðar, sem var allra manna fótfráastur hvarf sem örskot út um hliðið sem stóð opið. Verkstjórinn einbeitti sér því að mér, sem stóð staður í sporunum. Þóttist hann hafa króað mig af í spýtnabrakinu en mér tókst að þvælast þarna milli spýtnabúnta og skjótast úr greipum hans hvað eftir annað. Lánaðist mér að smjúga framhjá honum og út í portið og hófst þá æsilegur eltingaleikur, sem endaði í kapphlaupi, sem barst út um allt portið og bættust nú nokkrir starfsmenn verkmiðjunnar í hópinn. Tókst mér með erfiðismunum að sikksakka á milli þeirra allt til þess að ég komst út um hliðið og hafði þá hrist alla af mér utan einn ungan mann, sem virtist hið besta á sig kominn og ætlaði hvergi að gefa sig. Adrenalínið í blóði mínu var á þrotum og alltaf dró saman með mér og þessum eljara mínum og sýndist nú fátt til ráða. Á flóttanum varð mér títt litið aftur fyrir mig og sá ég þá að eftirförin var mjög illa skóuð. Maðurinn var á sandölum. Enn dró saman með okkur og sá ég út undan mér að hann var farinn að teygja fram handlegginn í von um að geta gripið mig á hlaupunum. Kraftar voru þrotnir og ósigur blasti við. Voru nú góð ráð dýr. Og viti menn. Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að fyrir neðan Skoda-umboðið, sem þá var næsta bygging við Auðbrekkusjoppuna, hafði nýlega verið dreift rauðamöl. Ég var á gúmmítúttum, en taldi að ég myndi lifa það af og tók því strikið niður með sjoppunni með portvörðinn á hælunum. Hljóp ég sem leið lá fram með Skoda-umboðinu fyrir hornið og tók stefnuna til vesturs aftur í átt að Sigurði Elíassyni Hurðariðju inn á rauðamölina. Það fór sem ég vonaði, að þegar smiðurinn á Jesússkónum kom inn á hraunið var sem það rynni enn rauðglóandi, slík voru viðbrögðin. Týndi ég honum þarna í hrauninu og skokkaði létt niður á Nýbýlaveg. Engar hafði ég spýturnar út úr þessari Bjarmalandsför og minnist þess reynar ekki að hafa haft svo mikið sem eina flís út úr Hurðariðju Sigurðar Elíassonar eftir þetta.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.