Minningabrot - Árin á Bestó

Alveg er það bráðmerkilegt hvað maður þarf alltaf að vera að hugsa til baka. Sumir láta sér nægja að lifa í núinu en aðrir skipuleggja sig í hið óendanlega fram í tíman. Ég hugsa til baka. Og því kæru lesendur ætla ég að þreyta ykkur með hugsunum mínum og minningum. Ég ætla að fara með ykkur aftur á miðja síðustu öld til að byrja með og stefna á aldamótin. Hugsanlega förum við eitthvað aftur fyrir það tímamark. Ég vona að þið hafið gagn og gaman af þessum fátæklegur minningum og frásögnum.

Ég er eins og fram kemur í kynningu á höfundi hér á síðunni fæddur í Reykjavík upp úr miðri síðustu öld sonur hjónanna Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar, gullsmíðameistara og Svövu Jónsdóttur, húsmóður. Fjölskylda mín bjó í þriggja hæða bárujárnshúsi að Bergstaðastræti 17 í 3 herbergja íbúð sem áttu afi minn Jón Halldór Gíslason, múrarameistari og kona hans Guðrún Jónsdóttir, húsmóðir. Þau voru móðurforeldrar mínir. Föðuramma mín Ragnhildur Jónsdóttir, húsmóðir, bjó þá að Grettisgötu 81, í Reykjavík, ekkja eftir afa minn Bjarna Einarsson, gullsmíðameistara, sem lengst af starfaði hjá Rafveitunni, en andaðist árið 1952 langt fyrir aldur fram. En aftur að hæðinni á Bergstaðastrætinu. Henni var skipt í tvær íbúðir og bjuggum við 5 manna fjölskylda í þessum 3 herbergjum sem samtals töldu 27 fermetra. Eldhús var í einu herberginu og voru þá eftir 18 fermetrar til annarra daglegra þarfa. Sameiginlegt vatnsklósett var á miðhæðinni, alger lúxus. Við krakkarnir vorum baðaðir í steinkeri í kjallaranum svo mikið er víst, en ekki veit ég hvernig fullorðna fólkið fór að með sín hreinlætismál. Eitthvað hefur mömmu leiðst að ramba í kjallarann með okkur krakkana því að myndir eru til af systur minni þar sem hún baðar sig í bala í eldhúsinu.  Ranka í bala_small

Ég er ekki langminnugur sem annað fólk, en margt situr þó í minni mínu frá þeim dögum er ég bjó að Bergstaðastræti 17, með stórfjölskyldunni, sem samanstóð af afa mínum og ömmu, föður mínum og móður og okkur eldri systkinunum þremur. Er það meira sem ómur minninga og kann allt eins að stafa af endursögnum annarra eins og eigin upplifunum. Eitt dæmi er saga sem faðir minn sagði mér af því undarlega fyrirkomulagi, sem var á almannatryggingum um þær mundir sem við eldri systkinin vorum að fæðast. Þurfti þá að greiða fullt verð fyrir fæðingaraðstoð og hlaupa með reikninginn eins og fætur toguðu niður í sjúkrasamlag og ná þar í nákvæmlega sömu upphæð, sem endurgreiðslu og þjóta síðan með þessa upphæð og leggja inn í bankann til að eiga innistæðu á ávísannareikningnum þegar að innlausn kæmi.

Aftur að afa mínum Jóni. Hann var af fátæku fólki kominn og hafði af dugnaði og elju brotist til nokkurra efna. Tel ég líklegt að hann hafi sjálfur staðið að byggingu hússins að Bergstaðastræti 17. Hann var mikill merkismaður stálheiðarlegur og vinnusamur. Eru mér minnisstæð samskipti mín við hann. Hann var fæddur hinn 19. maí 1883 sama ár og Krakatá sprakk í loft upp. Hann var því 71 árs þegar ég fæddist. Afi hafði séð og reynt ýmislegt um dagana. Fyrri kona hans Auðbjörg dó úr berklum. Amma mín Guðrún kom til hans sem ráðskona og tókust með þeim ástir og þau giftu sig. Ömmu minnar minnist ég sem einstaklega hjartahlýrrar manneskju og með afbrigðum brosfagurrar konu.                                 

Æskuárin á Bestó eins og við kölluðum Bergstaðastræti 17 eru vörðuð ýmsum skrítnum og skondnum minningum. Amma Guðrún var réttargæslumaður minn og skjöldur gagnvart krökkunum í hverfinu og þá einkum rauðhærðum prökkurum. Í næsta húsi, Bergstaðastræti 19, bjó piltur að nafni Paul Holm. Paul var jafnaldri minn, en nokkuð stærri allur í sniðum en ég var og með miklum mun rauðari haus. Upphafleg kynni okkar Pauls voru með þeim hætti, að hann rak mig á flótta eftir samskipti nokkur, sem engin vitni voru að, sem betur fer. Amma gamla sá hvar hann rak flóttann með skóflu reidda til höggs og skarst hún að vonum í leikinn. Æpti hún að Paul hvað gengi á og hverju eltingaleikur þessi sætti. Svaraði hann þá þessum fleygu orðum: "Hann lam mig og þá bar ég hann."  

Eitthvað hefur ræst úr þessum upphaflegu kynnum okkar Pauls því aðra sögu kann ég af frábærum talanda hans og fylgir hún hér:  Við félagarnir sátum og Paul var að segja mér sögu, sem hófst á þessum orðum: "Stýrisstjórinn sigldi út á hafur." Framhald sögu þessarar kann ég ekki og innti Paul ekki eftir því 30 árum síðar þegar við urðum nágrannar á ný í Hnífsdal.

Ýmislegt brölluðum við Paul þarna á æskuslóðum. Eitt aðaluppátækið var fólgið í því að stelast inn í jeppabifreiðar, sem voru á planinu við hliðina á Bernhöftsbakaríi. Jeppar voru á þessum tíma mjög haganlega útbúnir með startara í gólfinu og mátti aka þeim nokkurn spöl með því að starta þeim í gír. Höfðum við af þessu skemmtan nokkra uns tiltækið uppgötvaðist og var okkur komið í skilning um að við myndum hafa betra af að láta af þessum leik.

Annar vinur minn á þessum árum var Rabbi. Hann var langur sláni einkum ef miðað er við að hann var ekki nema 4-5 ára gamall. Reyndar átti hann eftir að lengjast enn meira þegar fram í sótti. Við Rabbi vorum einu sinni hirtir af lögreglunni í Reykjavík fyrir að þríhjóla niður laugaveginn innan um alla bílana.

Systkini mín áttu sina daga, þegar við bjuggum á Bestó. Hús var kallað Brenna og hefði skv. öllum venjulegum gatnamerkingakerfum átt að vera nr. 13 við Bergstaðastræti, þar sem auð lóð var á milli þess og húss afa míns á nr.17. Allt um það þá gerðist það einhverju sinni að systkini mín Ragnhildur og Jón Halldór komu heim öll rauð um munninn og hófst þegar úttekt á því hvað valdið gæti roða þessum. Við eftirgrennslan kom í ljós að þau ásamt nokkrum öðrum krökkum úr hverfinu höfðu farið inn í Brennu sem þá stóð mannlaus og komist þar í meðalaskáp. Voru foreldrar okkar og hinna barnanna skelfingu lostnir og óskuðu þegar eftir efnagreiningu á innihaldi meðalaglasins sem börnin höfðu drukkið úr. Flaskan var ómerkt með öllu og innihélt rauðan þykkfljótandi vökva. Efnagreining var framkvæmd af lyfjafræðingi í Laugavegsapóteki. Niðurstaða lá fyrir á innan við hálftíma. Mjöðurinn reyndist vera njálgsmeðal. Atburður þessi hafði ekki afleiðingar aðrar en þær, að næstu vikur þóttu börn í hverfinu óvenjulega róleg.

Verslanir voru nokkrar í hverfinu. Fyrst er að geta Ávaxtabúðar Sigurðar. Var alltaf talað um að fara til Sigga í Ávaxtabúðinni. Ferðir í Ávaxtabúðina með mömmu voru að vonum vinsælar, enda voru slíkar fylgdir jafnan launaðar með Öldusúkkulaði. Var reyndar haft fyrir satt um heiðarleika minn "í æsku", að ég hefði jafnan neitað að taka við súkkulaðistykkinu fyrr en móðir mín hefði staðfest að það væri að fullu greitt og að kaupum væri lokið með handsali. Verslun þessi var við Óðinstorg rétt neðan við Brauðbæ. KRON var á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs og var meira í áttina að nútíma stórmarkaði meðan Siggabúð samsvaraði frekar kaupmanninum á horninu eins og hann var í þá daga. Minna þótti mér til KRON'S koma. Merkilegust verslana í gamla hverfinu var samt í barnshuganum einnig staðsett á horni Bergsstaðastrætis og  Skólavörðustígs beint á móti KRON.  Hét hún Gosi og var það sem kallað var og er "sjoppa". Þangað sóttum við krakkarnir gjarnan þá sjaldan við áttum aur. Ýmislegt góðgæti var þar að fá en vinsælastur var bleikur ís í brauðformi, sem tekinn var beint úr frysti, en ekki úr vél eins og nú tíðkast.

Talandi um auraleysi. Ekki lágu peningar á lausu á þessum árum fram til 1960 er við fluttum úr hverfinu. Endrum og sinnum kom það þó fyrir og það þá helst ef eiginmaður móðursystur minnar, Ingibjargar Jónsdóttur, séra Þórarinn Þór, Prófastur í Austur-Barðastrandasýslu, búsettur á Reykhólum, kom til borgarinnar. Sr. Þórarinn átti alltaf perubrjóstsykur og svo var hann líka mikill galdrakarl. Hans uppáhalds galdur var að galdra "túkalla" út úr eyrunum og hárinu á manni. Við krakkarnir leyfðum honum alltaf að galdra að vild og þótti nokkuð skemmtilegt að taka þátt í þessum göldrum. Skemmtilegast af öllu við galdrana var þó, að þar sem túkallarnir voru dregnir út úr eyrunum á okkur voru þeir eignarrétti undirorpnir og fengum við vitanlega að halda þeim að galdri yfirstöðnum. Peningana notuðum við síðan til "Gosaferða". Eitthvað hafa systkini mín gefið í skyn í seinni tíð að ég hafi jafnan keypt eldspýtur fyrir það sem ég fékk í minn hlut og að þau hafi á þessum árum kallað mig "brennuvarginn". Ég frábýð mér allar slíkar aðdróttanir og lýsi því yfir að allir mínir peningar fóru annað hvort í "bankabyssuna", sem svo var kölluð, eða beint í "Gosa".

Vel á minnst: "Gosi" var eitt undrið á þessum árum. Það var stutt í bíó á þessum góðu tímum. Vinsælast var að fara í Gamlabíó. Þar voru upphafleg kynni af Gosa, Mjallhvíti og dvergunum sjö, Þyrnirós, Öskubusku og Bamba. Pabbi fór oftast með okkur systkinin í bíó. Hann hafði alveg jafn gaman af því tel ég eins og við hin börnin. Oft og tíðum enduðu slíkar ferðir með því að hann þurfti að fá sér "smörre bröd" hjá Kjartani heitnum Halldórssyni í Brauðborginni eða hvað hann nú annars hét sá ágæti staður, eða þá að farið var til Gunnu á  Ísbirninum. Nutum við krakkarnir jafnan góðs af því hversu mikill sælkeri pabbi var.

Bíóferðir gengu ekki allar jafn snurðulaust fyrir sig. Einhverju sinni sem oftar vorum við Jón Halldór, bróðir minn á leið í hreyfimyndahús, eins og hann kallar það. Annað hvort var förinni heitið í Trípólíbíó eða Tjarnarbíó, sem er mun sennilegra. Þetta var að vetrarlagi og ís á Tjörninni. Ákváðum við bræðurnir að stytta okkur leið yfir tjörnina. Þegar við vorum komnir u.þ.b. hálfa leið yfir Reykjavíkurtjörn fór að braka og bresta í ísnum. Létum við það ekki á okkur fá, en héldum ótrauðir áfram för okkar. Einum tíu metrum lengra virtist ísinn orðinn traustari og ekkert benti til þess að hann myndi bresta, enda gerði hann það ekki. Ísinn hélt, en undirritaður þurfti endilega að ramba á einu vökina sem á ísnum var og hvarf á kaf í ískalt vatnið upp undir höku. Nonni bróðir náði að hífa mig upp úr vökinni og í sameiningu drösluðumst við heim við illan leik kaldir mjög og slæptir. Hreyfimyndina sáum við aldrei.

Ekki voru þetta einu viðskipti mín við Tjörnina. Aðal skemmtan okkar Rönku systur og félaga okkar á góðviðrisdögum var að fara niður í Hallargarð og stundum fórum við í  Hljómskálagarðinn. Í Hallargarðinum var ýmislegt aðhafst og eitt aðal gamanmálið var að spyrja Leibba Dóna hvað klukkan væri. Í seinni tíð er það auðvitað illskiljanlegt hvernig maður gat verið svo grimmur og skilningssljór. Í eitt skiptið, sem við Ranka og félagar lögðum í slíkan leiðangur hafði mér áskotnast lítill trébátur. Vildi ég ólmur sigla gripnum og linnti ekki látum fyrr en Ranka, sem er þremur árum eldri en ég lét þetta eftir mér. Lét ég síðan bátinn sigla með því að ganga eftir tjarnarbakkanum og dró bátinn á eftir mér. Fyrir minn fræga klaufaskap missti ég takið á bandinu og báturinn sigldi hraðbyri frá bakkanum. Ég reyndi að teygja mig í bátinn, en var of stuttur, enda ekki ýkja gamall. Endað það svo að ég féll í Tjörnina og saup strax hveljur. Engir fullorðnir voru nærstaddir og tóku krakkarnir sem með mér voru að hrópa hástöfum eftir hjálp. Ég barðist um á hæl og hnakka. Hafði  ekki vit á að standa einfaldlega upp, en þá hefði ég sennilega getað botnað þessa forarvilpu. Tók dýfu númer tvö. Ekkert bólaði á hjálpinni og mér var farið að sortna fyrir augum; skaut upp öðru sinni. Barðist um og sá dauðan nálgast. Tók þá þriðju dýfuna og var orðið nokkuð sama hvort mér yrði bjargað eður ei. Lá ég þarna á grúfu í þeirri ógeðslegustu forarvilpu, sem ég hefi kynnst fyrr og síðar, innan um leðju, brauðdeigsdrullu og fiður. Ég barðist við að ná andanum en við það fylltust lungun af vatni og hausinn á mér var gersamlega að springa í loft upp. Þessu fylgdu hræðilegar kvalir, angist og innilokunarkennd upp að ákveðnu marki. Þegar sársauka, angistar og innilokunarkenndarhámarkinu var náð færðist yfir mig værð og friður og þægindatilfinning. Mér varð alveg sama og ég hætti að sprikla og gaf mig á vald tilfinningunni. Ekki veit ég hvað  langur tími leið en það virtist óratími, sem ég dvaldi í þessu ástandi. Skyndilega var ég rifinn úr þessari sæluvímu og lá þá rennblautur og skjálfandi í aftursæti á leigubíl. Seinna var mér tjáð að leigubifreiðastjóri sem átti leið framhjá hafi stokkið út úr bíl sínum og dregið mig hálfdauðann upp úr Tjörninni. Hann keyrði mig heim og þar tók mamma á móti mér. Atburðurinn hlýtur að hafa fengið mjög á hana sérstaklega með hliðsjón af því að frumburður hennar, Lárus Bjarnason, alnafni minn, drukknaði á svipuðum aldri austur í Austur-Skaftafellssýslu á jörðinni Árnanesi í Nesjahreppi. Ég fékk aldrei að vita hver bjargaði þarna lífi mínu, enda held ég að gleymst hafi í öllum æsingnum, að spyrja lífgjafann að nafni. Hann er að öllum líkindum genginn, en ég kann honum miklar þakkir hvorum megin sem hann nú er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband