12.11.2008 | 21:01
Að sækja gull í greipar Englendinga.
Í fréttum í kvöld var fjallað um samskipti Breta og Íslendinga á liðnum öldum og hefur þar gengið á ýmsu. Heimildarmaður féttastofu fór aftur til 14 aldar og lýsti upphafi samskipta á sviði fiskveiða. Samskiptin ná mun lengra aftur á bókmenntasviðinu og skal nú gripið niður í Egilssögu Skallla-Grímssonar. Segir hér frá því er Egill hefur rekið flótta og drepið hvern þann mann er hann náði og hefnt þar með Þórólfs bróður síns:
" Síðan fór Egill með sveit sína á fund Aðalsteins konungs og gekk þegar fyrir konung er hann sat við drykkju. Þar var glaumur mikill. Og er konungur sá að Egill var inn kominn þá mælti hann að rýma skyldi pallinn þann hinn óæðra fyrir þeim og mælti að Egill skyldi sitja þar í öndvegi gegnt konungi.
Egill settist þar niður og skaut skildinum fyrir fætur sér. Hann hafið hjálm á höfði og lagið sverðið um kné sér og dró annað skeið til hálfs en þá skellti hann aftur í slíðrin. Hann sat uppréttur og var gneyptur mjög. Egill var mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt en ákaflega digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið furðulega og svo allt um kjálkana, hálsdigur og herðimikill, svo að það bar frá því sem aðrir menn voru, harðleitur og grimmilegur þá er hann var reiður. Hann var vel í vexti og hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma sköllóttur. En er hann sat, sem fyrr var ritað, þá hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina en annarri upp í hárrætur. Egill var svarteygur og skolbrúnn. Ekki vildi hann drekka þó honum væri borið en ýmsum hleypti hann brúnunum ofan eða upp.
Aðalsteinn konungur sat í hásæti. Hann lagði og sverð um kné sér. Og er þeir sátu svo um hríð þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétt yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið. Hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns. Konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður dró hann hringinn á hönd sér og þá fóru brýnn hans í lag. Lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni er honum var borið og drakk af."
Tær snilld.
Flestir þekkja framhald sögu þessarar og er þar helst í að Aðalsteinn lét bera inn tvær kistur silfurs og skyldi Egill færa föður sínum aðra í sonargjöld. Sumu skyldi hann skipta með frændum þeirra Þórólfs er heim kæmi. Egill tók við fénu og þakkað konungi gjafar og vinmæli. Tók Egill þaðan af að gleðjast.
Egill var fastheldinn á fé eins og aðrir Íslendingar og kom því svo fyrir að enginn fengi notið eftir hans dag eins og frægt er orðið. Nú er það svo að Englendingar hafa með sjálftöku og ólögum hirt af okkur Íslendingum tvær silfurkistur sem áttum við á landi Engla. Þeir hyggjast seilast enn lengra og hafa nú blandað saman tveimur óskyldum málum, þar sem eru hin svokölluðu "Ísbjargarmál" og hjálparbeiðni okkar Íslendinga til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég legg til að við verðum ekki minni menn en Egill forfaðir okkar og sýnum þeim ygglibrún. Það hýtur að segja sig sjálft að með því að taka yfir eignir Landsbankans í Bretlandi geti þeir háu herrrar ekki ætlast til þess að íslenska ríkið sem eingöngu fékk í sinn hlut íslenska hluta bankans gangi í ábyrgð fyrir það sem út af stendur í Bretlandi. Þeir geta heldur ekki blandað saman starfsemi Kaupþings Banka með þeim hætti sem þeir virðast hafa gert og slegið þar með tvær flugur í einu höggi og ákveðið sí svona að allt sem íslenskt er skuli upptækt gert og standa í ábyrgð fyrir skuldbindingum Landsbankans á Bretlandi. Allt er þetta undarleg hundalógík hjá þeim bresku.
Athugasemdir
Flott innlegg.
Ég rifja upp að þegar við íslendingar áttum í stríði þorska við bretann (ekki á sjúkrahúsinu) var sendur til Englands hress og ljóðmæltur maður til að afla fylgis við málstað íslendinga meðal almennings í þvísa landi.
Væri kannski ráð að endurtaka það bragð núna og senda sveit sögumanna og fræðimanna á sviði norrænnar sagnahefðar til Englands?
Bara hugmynd.
Jón Halldór Guðmundsson, 13.11.2008 kl. 00:25
Þakka þér Jón. Nú hefur þú verið sendur í þennan leiðangur. Minnir óneitanlega á ferðina sem aldrei var farin.
kv.
Lárus Bjarnason
Lárus Bjarnason, 14.11.2008 kl. 14:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.