Þá og nú

Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill málsins. 127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 773  —  488. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni.

Flm.: Gunnlaugur Stefánsson, Gísli S. Einarsson,
Kristján L. Möller, Svanfríður Jónasdóttir.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er kanni hvaða verkefni er unnt að flytja frá stjórnsýslustofnunum ríkisins til sýslumannsembættanna á landsbyggðinni. Nefndin undirbúi einnig flutning verkefna og stefni þannig að því að gera embættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði.

Greinargerð.
    Mjög brýnt er að leita allra leiða til þess að styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni. Það verður m.a. gert með því að efla atvinnulífið og auka fjölbreytni þess. Þar gegnir ríkið miklu hlutverki sem stærsti vinnuveitandi í landinu. Útþensla í starfsemi ríkisins á höfuðborgarsvæðinu hefur m.a. stuðlað að þeirri alvarlegu byggðaröskun sem nú blasir við.
    Mikilvægt er að þjónusta ríkisins við fólkið á landsbyggðinni verði styrkt. Flutningsmenn telja að það geti orðið m.a. með því að sýslumannsembættin á landsbyggðinni verði efld með flutningi nýrra verkefna til þeirra frá stjórnsýslustöðvum ríkisins í Reykjavík. Það mundi án efa styrkja búsetu og lífskjör á landsbyggðinni. Hlutverk nefndarinnar yrði því m.a. að gera tillögur um flutning ákveðinna verkefna.
    Telja má víst að slíkar ráðstafanir feli einnig í sér sparnað og hagræðingu fyrir ríkissjóð og styrki um leið þjónustu ríkisins við fólkið í landinu.
    Í skýrslu, sem stjórnskipuð nefnd um flutning ríkisstofnana út á land skilaði sumarið 1993, er fjallað m.a. um nauðsyn þess að efla sýslumannsembættin sem stjórnsýslumiðstöð í héraði. Þar segir m.a.:
    „Á löngum ferli sýslumannsembætta hefur skipan þeirra og hlutverk tekið margvíslegum breytingum í tímans rás, eftir því sem efni og aðstæður hafa krafist. Síðast kom til grundvallarbreyting með aðskilnaði dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Það hefur skapað ný viðhorf í stjórnsýslu. Fyrri skipan var hemill á eðlilega þróun. Dómsvald í héraði var veikt vegna sambýlis við umboðsvaldið og það leiddi til að minni umboðsstörf voru fengin sýslumönnum í hendur en efni stóðu til. Nú er hins vegar brautin rudd svo að efla megi stjórnsýslu ríkisins í héraði með því að fela sýslumönnum aukin umboðsstörf frá því sem verið hefur.
    Verkefni sýslumanna greinast annars vegar í lögreglustjórn, ásamt öðrum störfum við að halda uppi lögum og rétti, og hins vegar í almenn umboðsstörf. Þannig hafa sýslumenn með höndum innheimtu á tekjum ríkissjóðs að því leyti sem hún er ekki falin sameiginlegum gjaldheimtum. Þeir fara og með tollstjórn, hver í sínu umdæmi utan Reykjavíkur, og umboð fyrir Tryggingastofnun ríkisins og umsjón sjúkratrygginga. Á sama hátt mælir ekkert gegn því að sýslumenn geti haft umboð fyrir aðrar ríkisstofnanir eftir því sem nauðsyn krefur til að koma á betri þjónustu og nánari samskiptum en verið hefur við fólkið úti á landi.
    Í þessum tilgangi má gera sýslumannsembættin að almennum umboðsstofnunum fyrir svæðisbundna stjórnsýslu framkvæmdarvaldsins í héraði. Þannig gætu stofnanir ríkisins haft aðgang að sýslumönnum með framkvæmd sinna verkefna. Allt færi þetta samt eftir atvikum. Ríkisstofnanir eru eins mismunandi og þær eru margar. Sumar stofnanir kæmu ekki hér til greina, svo sem þar sem fyrir væri að fara sérstökum umboðsstjórnkerfum, eins og í heilbrigðis- og menntamálum. Stofnanir, sem varða eiginlega stjórnsýslu, kæmu hér til, fremur en þær sem fjölluðu um rannsóknir, ráðgjöf og áætlanagerð. Sömuleiðis væri hér frekar um að ræða stofnanir sem veita einstaklingsbundna þjónustu og útheimta tíð samskipti við þegnana heldur en þær stofnanir sem hafa fremur samskipti stórum og sjaldan við einstaka stjórnsýsluaðila, samtök og fyrirtæki. Allt kemur þetta til skoðunar.
    Þessi nýja skipan væri rakin leið til að stuðla að jöfnuði á aðstöðu þegnanna til að njóta þeirrar þjónustu sem ríkisvaldið lætur í té. Verkefni hinna almennu umboðsstofnana yrðu ekki síst fólgin í að miðla upplýsingum, veita fyrirgreiðslu, hafa á hendi afgreiðslu tiltekinna málaflokka og sinna svæðisbundnum viðfangsefnum fyrir hinar einstöku ríkisstofnanir. Ef til vill gætu slík viðfangsefni verið leyst af hendi að meira eða minna leyti með samræmingu og hagræðingu á öðrum störfum á sýsluskrifstofum, svo að hvorki kæmi til aukinn mannafli né húsnæði. Þar sem þetta kæmi ekki til gætu aukin umsvif, svo sem í sérhæfðum mannafla og tilheyrandi aðstöðu, haft í för með sér umtalsverðan kostnað. Er þá eðlilegt að hann sé greiddur af þeim stofnunum sem góðs njóta af, hliðstætt því sem gerist um önnur umboðsstörf sem sýslumenn fara nú með. Í þeim tilfellum þar sem stofnanir hafa sértekjur hljóta að gilda sömu reglur um útselda þjónustu, hvort heldur er í höfuðstöðvum eða hjá almennum umboðsstofnunum. En höfuðmáli skiptir að hin nýja skipan felur í sér hagkvæma og sveigjanlega aðferð til úrlausnar, eftir því sem efni og ástæður standa til hjá hverri stofnun. Um framkvæmd alla verður svo að mæla fyrir með almennri lagaheimild og reglugerðum, eftir því sem við á.
    Hér er ekki einungis um að ræða að flytja verkefni til umboðsvaldsins í héraði frá stofnunum ríkisins, heldur einnig frá sjálfum ráðuneytunum. Þar kæmu ekki síst til greina leyfisveitingar ýmiss konar, úrskurðarvald í vissum málum, margháttuð eftirlitsstörf og annað sem varðar eiginlega stjórnsýslu og betur á heima hjá svæðisbundnu umboðsvaldi í héraði en í miðstýringu stjórnarráðsins.
    Þessi skipan breytir engu um stöðuheiti og hlutverk sýslumanns við lögreglustjórn og meðferð skyldra mála. Sýslumenn heyra stjórnsýslulega undir dómsmálaráðherra, en lúta öðrum ráðherrum að því leyti sem þeir fara með mál sem ekki heyra undir dómsmálaráðherra.“
    Allir stjórnmálaflokkar þá á Alþingi áttu aðild að nefndinni og stóðu sameiginlega að áliti hennar. Eins og tilvitnunin hér að framan sýnir mætti flytja margvísleg störf til sýslumannsembættanna. En mikilvægast er að þessi störf fela í sér þjónustu við landsbyggðarfólk sem stýrt væri heima í héraði og væri nær fólkinu en nú er.
    Tillaga til þingsályktunar sama efnis var lögð fram á 117. löggjafarþingi.

Flutningsþjónusta leggst af á Seyðisfirði.

Eimskip og Samskip hafa lokað afgreiðslum sínum á Seyðisfirði. Íslandspóstur ohf. mun loka pósthúsinu á Seyðisfirði og flytja starfsemi sína í Landsbankann ef áform ganga eftir. Bæjarbúar hafa leitað svara við því hvernig fari með stærri sendingar og hafa svör verið á þann veg að stærri pakkar verði keyrðir beint heim til viðskiptavina Íslandspósts. Ég velti af þessu tilefni fyrir mér jafnræði þegna þessa lands og vísa til laga um póstþjónustu nr. 19/2002. Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvernig þetta samræmist reglugerð nr. 364/2003 um alþjónustu og framkvæmd póstþjónustu. Ýmis ákvæðí í lögunum og reglugerðinni eru sett til að tryggja lámarksþjónustu og öryggi í tengslum við póstþjónustu. Segir m.a. um markmið laga um póstþjónustu að það sé að tryggja hagkvæma og virka póstþjónustu um land allt og að allir landsmenn hafi aðgang að ákveðnum þáttum póstþjónustu. Við Seyðfirðingar verðum að halda vöku okkar og gæta þess að þjónusta við okkur og þá sem hér þurfa á póstþjónustu að halda fari ekki niður fyrir þær lágmarkskröfur sem gera verður til slíkrar þjónustu lögum samkvæmt.


Öldungablak

Þessa helgina fer fram öldungablak hér á Seyðisfirði. Nokkrir þessara "öldunga" hafa verð að stjákla í Samkaupum (Kaupfélagið okkar hérna á Seyðisfirði sem hefur höfuðstöðvar á Góðrarvonar Höfða á Reykjanestá). Þarna í Kaupfélaginu var Hjálmar vinur minn Níelsson sem er sporðdreki og fæddur 15. nóvember 1930 eða svo. Hann leit á ungpíurnar úr "öldungaliðinu", sneri sér að mér og sagði með velþóknun: " Ef þetta eru öldungar, hvað erum við þá?"

Síðar mun væntanlega fást skýring á þessu og grunar undirritaðan að þetta sé fremur "Öl-dunkamót." 


Göng(um) göng(um) hópurinn

Hópur fólks fór fótgangandi af stað yfir Fjarðarheiði í morgun.  Lagt var af stað frá Herðubreið um klukkan 10:20 og voru þeir fyrstu komnir til Egilsstaða um fjórum tímum síðar. Þetta eru greinilega hörkutól og röskleikafólk sem þarna gekk yfir einn hættulegasta fjallveg landsins, hina 27 km löngu Fjarðarheiði til þess að vekja athygli á brýnni þörf fyrir, og  löngu tímabær, jarðgöng milli Seyðisfjarðar og  nærliggjandi þéttbýlisstaða.  Meðfylgjandi myndir tók Jóhanna Gísladóttir þegar hópurinn lagði af stað í morgun

Að sækja gull í greipar Englendinga.

Í fréttum í kvöld var fjallað um samskipti Breta og Íslendinga á liðnum öldum og hefur þar gengið á ýmsu. Heimildarmaður féttastofu fór aftur til 14 aldar og lýsti upphafi samskipta á sviði fiskveiða. Samskiptin ná mun lengra aftur á bókmenntasviðinu og skal nú gripið niður í Egilssögu Skallla-Grímssonar. Segir hér frá því er Egill hefur rekið flótta og drepið hvern þann mann er hann náði og hefnt þar með Þórólfs bróður síns:

" Síðan fór Egill með sveit sína á fund Aðalsteins konungs og gekk þegar fyrir konung er hann sat við drykkju. Þar var glaumur mikill. Og er konungur sá að Egill var inn kominn þá mælti hann að rýma skyldi pallinn þann hinn óæðra fyrir þeim og mælti að Egill skyldi sitja þar í öndvegi gegnt konungi.

Egill settist þar niður og skaut skildinum fyrir fætur sér. Hann hafið hjálm á höfði og lagið sverðið um kné sér og dró annað skeið til hálfs en þá skellti hann aftur í slíðrin. Hann sat uppréttur og var gneyptur mjög. Egill var mikilleitur, ennibreiður, brúnamikill, nefið ekki langt en ákaflega digurt, granstæðið vítt og langt, hakan breið furðulega og svo allt um kjálkana, hálsdigur og herðimikill, svo að það bar frá því sem aðrir menn voru, harðleitur og grimmilegur þá er hann var reiður. Hann var vel í vexti og hverjum manni hærri, úlfgrátt hárið og þykkt og varð snemma sköllóttur. En er hann sat, sem fyrr var ritað, þá hleypti hann annarri brúninni ofan á kinnina en annarri upp í hárrætur. Egill var svarteygur og skolbrúnn. Ekki vildi hann drekka þó honum væri borið en ýmsum hleypti hann brúnunum ofan eða upp.

Aðalsteinn konungur sat í hásæti. Hann lagði og sverð um kné sér. Og er þeir sátu svo um hríð þá dró konungur sverðið úr slíðrum og tók gullhring af hendi sér, mikinn og góðan, og dró á blóðrefilinn, stóð upp og gekk á gólfið og rétt yfir eldinn til Egils. Egill stóð upp og brá sverðinu og gekk á gólfið. Hann stakk sverðinu í bug hringinum og dró að sér, gekk aftur til rúms síns. Konungur settist í hásæti. En er Egill settist niður dró hann hringinn á hönd sér og þá fóru brýnn hans í lag. Lagði hann þá niður sverðið og hjálminn og tók við dýrshorni er honum var borið og drakk af."

Tær snilld.

Flestir þekkja framhald sögu þessarar og er þar helst í að Aðalsteinn lét bera inn tvær kistur silfurs og skyldi Egill færa föður sínum aðra í sonargjöld. Sumu skyldi hann skipta með frændum þeirra Þórólfs er heim kæmi. Egill tók við fénu og þakkað konungi gjafar og vinmæli. Tók Egill þaðan af að gleðjast. 

Egill var fastheldinn á fé eins og aðrir Íslendingar og kom því svo fyrir að enginn fengi notið eftir hans dag eins og frægt er orðið. Nú er það svo að Englendingar hafa með sjálftöku og ólögum hirt af okkur Íslendingum tvær silfurkistur sem áttum við á landi Engla.  Þeir hyggjast seilast enn lengra og hafa nú blandað saman tveimur óskyldum málum, þar sem eru hin svokölluðu "Ísbjargarmál" og hjálparbeiðni okkar Íslendinga til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég legg til að við verðum ekki minni menn en Egill forfaðir okkar og sýnum þeim ygglibrún. Það hýtur að segja sig sjálft að með því að taka yfir eignir Landsbankans í Bretlandi geti þeir háu herrrar ekki ætlast til þess að íslenska ríkið sem eingöngu fékk í sinn hlut íslenska hluta bankans gangi í ábyrgð fyrir það sem út af stendur í Bretlandi. Þeir geta heldur ekki blandað saman starfsemi Kaupþings Banka með þeim hætti sem þeir virðast hafa gert og slegið þar með tvær flugur í einu höggi og ákveðið sí svona að allt sem íslenskt er skuli upptækt gert og standa í ábyrgð fyrir skuldbindingum Landsbankans á Bretlandi. Allt er þetta undarleg hundalógík hjá þeim bresku. 


Norræna hefur haustsiglingar

Ferjan kemur á morgun þriðjudaginn 2. september til Seyðisfjarðar og siglir á miðvikudaginn aftur utan. Nú er monsún-tímabilið byrjað hér fyrir austan með rigningum og lægðagangi. Vonandi hellir hann ekki svo hressilega úr sér að hætta verði á jarðraski. Hreindýraveiðar hafa gengið ágætlega það best séð verður. Nokkrir vatnavextir eru í ám og hefur það væntanlega spillt eitthvað fyrir silungs-og laxveiðum. Annars er farinn að sjatna ferðamannastraumurinn eins og vill verða þegar líður á haustið. Hér eru þó enn á sveimi einstaka hreindýraskyttur og aðrir útivistarhópar. Venjuleg aðalfundarstörf fara að hefjast í hinum og þessum félögum með tilhreyandi ferðalögum.

Af Loðmundarfjarðarleiðangri

Við hjónin lögðum af stað frá Seyðisfirði um það bil kl.18.00 á föstudaginn og vitanlega lá leiðin í Bónus á Egilsstöðum, þar sem tekinn var kostur sem hefði dugað heilli togaraáhöfn. Það ku jú vera kreppa. Og svona til að drepast nú ekki úr hor á leiðinni fórum við á Subway og fengum okkur 12 tommu bræðing, sem við skiptum ójafnt á milli okkar. Ágætt að hafa a.m.k. einn skyndibitastað á svæðinu. Ókum síðan sem leið lá til Borgarfjarðar Eystra eftir ágætis vegi, en heldur fór að kárna gamanið það sem eftir lifði ferðar. Lentum síðan í Stakkahlíð vel eftir myrkur. Helgin leið síðan í ljúfum draumi. Fjórir silungar veiddust og lentu 3 í potti en einn fékk lífi að halda. Lukum svo reisu þessari síðla á sunnudeginum heima í Miðtúni.  

Ferð í Lommann.

Veður hefur verið með afbrigðum leiðinleg hérna fyrir austan í dag og eflaust víðast hvar um landið. Ég ætla að bregða mér í Lommann í kvöld og gista fram á sunnudag. Vonandi er vegurinn á sínum stað. Sennilega er ég með latari bloggurum og bið gesti síðunnar velvirðingar á því hvað ég hefi verið latur að skrifa. Það er hálfgerð gúrkutíð. Helstu fréttir þær að Lagarfljót sé mórautt. Var mógrænt fyrir. Það kom Norskur sirkus til landsins í gær og mun halda sýningar víða um land. Annars tíðindalítið. Norræna mun skipta yfir í vetraráætlun í næstu viku. Flug er með minnsta móti og umferð hefur verið að dragast saman á svæðinu. Starfsmenn eru að tínast til vinnu eftir sumarfrí og verður brátt fullskipað á mínum vinnustað. Handboltinn er hættur að rúlla og nú er að bíða eftir að eitthvað annað taki við. Allt með kyrrum kjörum í borginni og ekki verið skipt um meirihluta í einhverja daga. Fer nú í að undirbúa Lommaferðina. Læt kannski vita af aflabrögðum. Fékk 3 miðlungs laxa í fyrra og vona að gangi ekki verr í ár. Gleymdi þá "hólkinum" en tek hann kannski með að þessu sinni og ath. með gæsir. Gríp þær ef gefast.

Minningabrot - Árin á Bestó

Alveg er það bráðmerkilegt hvað maður þarf alltaf að vera að hugsa til baka. Sumir láta sér nægja að lifa í núinu en aðrir skipuleggja sig í hið óendanlega fram í tíman. Ég hugsa til baka. Og því kæru lesendur ætla ég að þreyta ykkur með hugsunum mínum og minningum. Ég ætla að fara með ykkur aftur á miðja síðustu öld til að byrja með og stefna á aldamótin. Hugsanlega förum við eitthvað aftur fyrir það tímamark. Ég vona að þið hafið gagn og gaman af þessum fátæklegur minningum og frásögnum.

Ég er eins og fram kemur í kynningu á höfundi hér á síðunni fæddur í Reykjavík upp úr miðri síðustu öld sonur hjónanna Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar, gullsmíðameistara og Svövu Jónsdóttur, húsmóður. Fjölskylda mín bjó í þriggja hæða bárujárnshúsi að Bergstaðastræti 17 í 3 herbergja íbúð sem áttu afi minn Jón Halldór Gíslason, múrarameistari og kona hans Guðrún Jónsdóttir, húsmóðir. Þau voru móðurforeldrar mínir. Föðuramma mín Ragnhildur Jónsdóttir, húsmóðir, bjó þá að Grettisgötu 81, í Reykjavík, ekkja eftir afa minn Bjarna Einarsson, gullsmíðameistara, sem lengst af starfaði hjá Rafveitunni, en andaðist árið 1952 langt fyrir aldur fram. En aftur að hæðinni á Bergstaðastrætinu. Henni var skipt í tvær íbúðir og bjuggum við 5 manna fjölskylda í þessum 3 herbergjum sem samtals töldu 27 fermetra. Eldhús var í einu herberginu og voru þá eftir 18 fermetrar til annarra daglegra þarfa. Sameiginlegt vatnsklósett var á miðhæðinni, alger lúxus. Við krakkarnir vorum baðaðir í steinkeri í kjallaranum svo mikið er víst, en ekki veit ég hvernig fullorðna fólkið fór að með sín hreinlætismál. Eitthvað hefur mömmu leiðst að ramba í kjallarann með okkur krakkana því að myndir eru til af systur minni þar sem hún baðar sig í bala í eldhúsinu.  Ranka í bala_small

Ég er ekki langminnugur sem annað fólk, en margt situr þó í minni mínu frá þeim dögum er ég bjó að Bergstaðastræti 17, með stórfjölskyldunni, sem samanstóð af afa mínum og ömmu, föður mínum og móður og okkur eldri systkinunum þremur. Er það meira sem ómur minninga og kann allt eins að stafa af endursögnum annarra eins og eigin upplifunum. Eitt dæmi er saga sem faðir minn sagði mér af því undarlega fyrirkomulagi, sem var á almannatryggingum um þær mundir sem við eldri systkinin vorum að fæðast. Þurfti þá að greiða fullt verð fyrir fæðingaraðstoð og hlaupa með reikninginn eins og fætur toguðu niður í sjúkrasamlag og ná þar í nákvæmlega sömu upphæð, sem endurgreiðslu og þjóta síðan með þessa upphæð og leggja inn í bankann til að eiga innistæðu á ávísannareikningnum þegar að innlausn kæmi.

Aftur að afa mínum Jóni. Hann var af fátæku fólki kominn og hafði af dugnaði og elju brotist til nokkurra efna. Tel ég líklegt að hann hafi sjálfur staðið að byggingu hússins að Bergstaðastræti 17. Hann var mikill merkismaður stálheiðarlegur og vinnusamur. Eru mér minnisstæð samskipti mín við hann. Hann var fæddur hinn 19. maí 1883 sama ár og Krakatá sprakk í loft upp. Hann var því 71 árs þegar ég fæddist. Afi hafði séð og reynt ýmislegt um dagana. Fyrri kona hans Auðbjörg dó úr berklum. Amma mín Guðrún kom til hans sem ráðskona og tókust með þeim ástir og þau giftu sig. Ömmu minnar minnist ég sem einstaklega hjartahlýrrar manneskju og með afbrigðum brosfagurrar konu.                                 

Æskuárin á Bestó eins og við kölluðum Bergstaðastræti 17 eru vörðuð ýmsum skrítnum og skondnum minningum. Amma Guðrún var réttargæslumaður minn og skjöldur gagnvart krökkunum í hverfinu og þá einkum rauðhærðum prökkurum. Í næsta húsi, Bergstaðastræti 19, bjó piltur að nafni Paul Holm. Paul var jafnaldri minn, en nokkuð stærri allur í sniðum en ég var og með miklum mun rauðari haus. Upphafleg kynni okkar Pauls voru með þeim hætti, að hann rak mig á flótta eftir samskipti nokkur, sem engin vitni voru að, sem betur fer. Amma gamla sá hvar hann rak flóttann með skóflu reidda til höggs og skarst hún að vonum í leikinn. Æpti hún að Paul hvað gengi á og hverju eltingaleikur þessi sætti. Svaraði hann þá þessum fleygu orðum: "Hann lam mig og þá bar ég hann."  

Eitthvað hefur ræst úr þessum upphaflegu kynnum okkar Pauls því aðra sögu kann ég af frábærum talanda hans og fylgir hún hér:  Við félagarnir sátum og Paul var að segja mér sögu, sem hófst á þessum orðum: "Stýrisstjórinn sigldi út á hafur." Framhald sögu þessarar kann ég ekki og innti Paul ekki eftir því 30 árum síðar þegar við urðum nágrannar á ný í Hnífsdal.

Ýmislegt brölluðum við Paul þarna á æskuslóðum. Eitt aðaluppátækið var fólgið í því að stelast inn í jeppabifreiðar, sem voru á planinu við hliðina á Bernhöftsbakaríi. Jeppar voru á þessum tíma mjög haganlega útbúnir með startara í gólfinu og mátti aka þeim nokkurn spöl með því að starta þeim í gír. Höfðum við af þessu skemmtan nokkra uns tiltækið uppgötvaðist og var okkur komið í skilning um að við myndum hafa betra af að láta af þessum leik.

Annar vinur minn á þessum árum var Rabbi. Hann var langur sláni einkum ef miðað er við að hann var ekki nema 4-5 ára gamall. Reyndar átti hann eftir að lengjast enn meira þegar fram í sótti. Við Rabbi vorum einu sinni hirtir af lögreglunni í Reykjavík fyrir að þríhjóla niður laugaveginn innan um alla bílana.

Systkini mín áttu sina daga, þegar við bjuggum á Bestó. Hús var kallað Brenna og hefði skv. öllum venjulegum gatnamerkingakerfum átt að vera nr. 13 við Bergstaðastræti, þar sem auð lóð var á milli þess og húss afa míns á nr.17. Allt um það þá gerðist það einhverju sinni að systkini mín Ragnhildur og Jón Halldór komu heim öll rauð um munninn og hófst þegar úttekt á því hvað valdið gæti roða þessum. Við eftirgrennslan kom í ljós að þau ásamt nokkrum öðrum krökkum úr hverfinu höfðu farið inn í Brennu sem þá stóð mannlaus og komist þar í meðalaskáp. Voru foreldrar okkar og hinna barnanna skelfingu lostnir og óskuðu þegar eftir efnagreiningu á innihaldi meðalaglasins sem börnin höfðu drukkið úr. Flaskan var ómerkt með öllu og innihélt rauðan þykkfljótandi vökva. Efnagreining var framkvæmd af lyfjafræðingi í Laugavegsapóteki. Niðurstaða lá fyrir á innan við hálftíma. Mjöðurinn reyndist vera njálgsmeðal. Atburður þessi hafði ekki afleiðingar aðrar en þær, að næstu vikur þóttu börn í hverfinu óvenjulega róleg.

Verslanir voru nokkrar í hverfinu. Fyrst er að geta Ávaxtabúðar Sigurðar. Var alltaf talað um að fara til Sigga í Ávaxtabúðinni. Ferðir í Ávaxtabúðina með mömmu voru að vonum vinsælar, enda voru slíkar fylgdir jafnan launaðar með Öldusúkkulaði. Var reyndar haft fyrir satt um heiðarleika minn "í æsku", að ég hefði jafnan neitað að taka við súkkulaðistykkinu fyrr en móðir mín hefði staðfest að það væri að fullu greitt og að kaupum væri lokið með handsali. Verslun þessi var við Óðinstorg rétt neðan við Brauðbæ. KRON var á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs og var meira í áttina að nútíma stórmarkaði meðan Siggabúð samsvaraði frekar kaupmanninum á horninu eins og hann var í þá daga. Minna þótti mér til KRON'S koma. Merkilegust verslana í gamla hverfinu var samt í barnshuganum einnig staðsett á horni Bergsstaðastrætis og  Skólavörðustígs beint á móti KRON.  Hét hún Gosi og var það sem kallað var og er "sjoppa". Þangað sóttum við krakkarnir gjarnan þá sjaldan við áttum aur. Ýmislegt góðgæti var þar að fá en vinsælastur var bleikur ís í brauðformi, sem tekinn var beint úr frysti, en ekki úr vél eins og nú tíðkast.

Talandi um auraleysi. Ekki lágu peningar á lausu á þessum árum fram til 1960 er við fluttum úr hverfinu. Endrum og sinnum kom það þó fyrir og það þá helst ef eiginmaður móðursystur minnar, Ingibjargar Jónsdóttur, séra Þórarinn Þór, Prófastur í Austur-Barðastrandasýslu, búsettur á Reykhólum, kom til borgarinnar. Sr. Þórarinn átti alltaf perubrjóstsykur og svo var hann líka mikill galdrakarl. Hans uppáhalds galdur var að galdra "túkalla" út úr eyrunum og hárinu á manni. Við krakkarnir leyfðum honum alltaf að galdra að vild og þótti nokkuð skemmtilegt að taka þátt í þessum göldrum. Skemmtilegast af öllu við galdrana var þó, að þar sem túkallarnir voru dregnir út úr eyrunum á okkur voru þeir eignarrétti undirorpnir og fengum við vitanlega að halda þeim að galdri yfirstöðnum. Peningana notuðum við síðan til "Gosaferða". Eitthvað hafa systkini mín gefið í skyn í seinni tíð að ég hafi jafnan keypt eldspýtur fyrir það sem ég fékk í minn hlut og að þau hafi á þessum árum kallað mig "brennuvarginn". Ég frábýð mér allar slíkar aðdróttanir og lýsi því yfir að allir mínir peningar fóru annað hvort í "bankabyssuna", sem svo var kölluð, eða beint í "Gosa".

Vel á minnst: "Gosi" var eitt undrið á þessum árum. Það var stutt í bíó á þessum góðu tímum. Vinsælast var að fara í Gamlabíó. Þar voru upphafleg kynni af Gosa, Mjallhvíti og dvergunum sjö, Þyrnirós, Öskubusku og Bamba. Pabbi fór oftast með okkur systkinin í bíó. Hann hafði alveg jafn gaman af því tel ég eins og við hin börnin. Oft og tíðum enduðu slíkar ferðir með því að hann þurfti að fá sér "smörre bröd" hjá Kjartani heitnum Halldórssyni í Brauðborginni eða hvað hann nú annars hét sá ágæti staður, eða þá að farið var til Gunnu á  Ísbirninum. Nutum við krakkarnir jafnan góðs af því hversu mikill sælkeri pabbi var.

Bíóferðir gengu ekki allar jafn snurðulaust fyrir sig. Einhverju sinni sem oftar vorum við Jón Halldór, bróðir minn á leið í hreyfimyndahús, eins og hann kallar það. Annað hvort var förinni heitið í Trípólíbíó eða Tjarnarbíó, sem er mun sennilegra. Þetta var að vetrarlagi og ís á Tjörninni. Ákváðum við bræðurnir að stytta okkur leið yfir tjörnina. Þegar við vorum komnir u.þ.b. hálfa leið yfir Reykjavíkurtjörn fór að braka og bresta í ísnum. Létum við það ekki á okkur fá, en héldum ótrauðir áfram för okkar. Einum tíu metrum lengra virtist ísinn orðinn traustari og ekkert benti til þess að hann myndi bresta, enda gerði hann það ekki. Ísinn hélt, en undirritaður þurfti endilega að ramba á einu vökina sem á ísnum var og hvarf á kaf í ískalt vatnið upp undir höku. Nonni bróðir náði að hífa mig upp úr vökinni og í sameiningu drösluðumst við heim við illan leik kaldir mjög og slæptir. Hreyfimyndina sáum við aldrei.

Ekki voru þetta einu viðskipti mín við Tjörnina. Aðal skemmtan okkar Rönku systur og félaga okkar á góðviðrisdögum var að fara niður í Hallargarð og stundum fórum við í  Hljómskálagarðinn. Í Hallargarðinum var ýmislegt aðhafst og eitt aðal gamanmálið var að spyrja Leibba Dóna hvað klukkan væri. Í seinni tíð er það auðvitað illskiljanlegt hvernig maður gat verið svo grimmur og skilningssljór. Í eitt skiptið, sem við Ranka og félagar lögðum í slíkan leiðangur hafði mér áskotnast lítill trébátur. Vildi ég ólmur sigla gripnum og linnti ekki látum fyrr en Ranka, sem er þremur árum eldri en ég lét þetta eftir mér. Lét ég síðan bátinn sigla með því að ganga eftir tjarnarbakkanum og dró bátinn á eftir mér. Fyrir minn fræga klaufaskap missti ég takið á bandinu og báturinn sigldi hraðbyri frá bakkanum. Ég reyndi að teygja mig í bátinn, en var of stuttur, enda ekki ýkja gamall. Endað það svo að ég féll í Tjörnina og saup strax hveljur. Engir fullorðnir voru nærstaddir og tóku krakkarnir sem með mér voru að hrópa hástöfum eftir hjálp. Ég barðist um á hæl og hnakka. Hafði  ekki vit á að standa einfaldlega upp, en þá hefði ég sennilega getað botnað þessa forarvilpu. Tók dýfu númer tvö. Ekkert bólaði á hjálpinni og mér var farið að sortna fyrir augum; skaut upp öðru sinni. Barðist um og sá dauðan nálgast. Tók þá þriðju dýfuna og var orðið nokkuð sama hvort mér yrði bjargað eður ei. Lá ég þarna á grúfu í þeirri ógeðslegustu forarvilpu, sem ég hefi kynnst fyrr og síðar, innan um leðju, brauðdeigsdrullu og fiður. Ég barðist við að ná andanum en við það fylltust lungun af vatni og hausinn á mér var gersamlega að springa í loft upp. Þessu fylgdu hræðilegar kvalir, angist og innilokunarkennd upp að ákveðnu marki. Þegar sársauka, angistar og innilokunarkenndarhámarkinu var náð færðist yfir mig værð og friður og þægindatilfinning. Mér varð alveg sama og ég hætti að sprikla og gaf mig á vald tilfinningunni. Ekki veit ég hvað  langur tími leið en það virtist óratími, sem ég dvaldi í þessu ástandi. Skyndilega var ég rifinn úr þessari sæluvímu og lá þá rennblautur og skjálfandi í aftursæti á leigubíl. Seinna var mér tjáð að leigubifreiðastjóri sem átti leið framhjá hafi stokkið út úr bíl sínum og dregið mig hálfdauðann upp úr Tjörninni. Hann keyrði mig heim og þar tók mamma á móti mér. Atburðurinn hlýtur að hafa fengið mjög á hana sérstaklega með hliðsjón af því að frumburður hennar, Lárus Bjarnason, alnafni minn, drukknaði á svipuðum aldri austur í Austur-Skaftafellssýslu á jörðinni Árnanesi í Nesjahreppi. Ég fékk aldrei að vita hver bjargaði þarna lífi mínu, enda held ég að gleymst hafi í öllum æsingnum, að spyrja lífgjafann að nafni. Hann er að öllum líkindum genginn, en ég kann honum miklar þakkir hvorum megin sem hann nú er.


Smá skemmtisaga úr Kópavogi frá árunum upp úr 1960.

Hurðariðja Sigurðar Elíassonar

Það var mikil tíska á þessum árum að laumast inn í port hjá hurðasmiðju Sigurðar Elíassonar, sem stóð yst í Auðbrekkunni og hefur sennilega verið nr. 2 í þeirri ágætu götu. Portið var girt af með mikilli bárujárnsgirðingu. Að hluta til var girðing þessi notuð sem útveggur á yfirbyggðri timburgeymslu, sem var opin í sjálfu portinu og var því nokkurn vegin eins mannvirki og stúka á fótboltavelli. Við strákarnir þurftum mikið á timbri að halda á þessum árum og ef við fengum efniviðinn ekki gefins á nærliggjandi verkstæðum, sem voru mjög mörg, urðum við að taka hann ófrjálsri hendi. Mest spennandi var auðvitað að nálgast efnið þar sem mest var gæslan og gilti þar sama reglan og varðandi aðra hrekki, að þeim mun meira sem þeir fengu á fórnarlambið þeim mun meira fengum við út úr þeim. Hjá Sigurði Elíassyni var sem sagt mikið lagt upp úr því að verja timbrið og má segja að það hafi verið gagnvarið. Tvær leiðir voru vænlegar til að komast inn í portið. Annars vegar mátti læðast inn um hliðið, sem sneri upp í Auðbrekkuna eða klifra upp á þakið á timburskýlinu og þaðan niður í portið. Var það svo einhverju sinni að við Skari, Mummi (Guðmundur Jónson Vídalín), Hreiðar Kárason og ég fundum hjá okkur hvöt til að sækja efnivið í sverð og skildi í þessa víggirtu geymslu. Klifruðum við yfir girðinguna og vorum að rótast í timburbirgðunum þegar verkstjórann bar að garði. Skipti engum togum að þeir félagar mínir tóku á sprett og náðu þeir Skari og Mummi að klifra upp á þakið aftur en Hreiðar, sem var allra manna fótfráastur hvarf sem örskot út um hliðið sem stóð opið. Verkstjórinn einbeitti sér því að mér, sem stóð staður í sporunum. Þóttist hann hafa króað mig af í spýtnabrakinu en mér tókst að þvælast þarna milli spýtnabúnta og skjótast úr greipum hans hvað eftir annað. Lánaðist mér að smjúga framhjá honum og út í portið og hófst þá æsilegur eltingaleikur, sem endaði í kapphlaupi, sem barst út um allt portið og bættust nú nokkrir starfsmenn verkmiðjunnar í hópinn. Tókst mér með erfiðismunum að sikksakka á milli þeirra allt til þess að ég komst út um hliðið og hafði þá hrist alla af mér utan einn ungan mann, sem virtist hið besta á sig kominn og ætlaði hvergi að gefa sig. Adrenalínið í blóði mínu var á þrotum og alltaf dró saman með mér og þessum eljara mínum og sýndist nú fátt til ráða. Á flóttanum varð mér títt litið aftur fyrir mig og sá ég þá að eftirförin var mjög illa skóuð. Maðurinn var á sandölum. Enn dró saman með okkur og sá ég út undan mér að hann var farinn að teygja fram handlegginn í von um að geta gripið mig á hlaupunum. Kraftar voru þrotnir og ósigur blasti við. Voru nú góð ráð dýr. Og viti menn. Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér að fyrir neðan Skoda-umboðið, sem þá var næsta bygging við Auðbrekkusjoppuna, hafði nýlega verið dreift rauðamöl. Ég var á gúmmítúttum, en taldi að ég myndi lifa það af og tók því strikið niður með sjoppunni með portvörðinn á hælunum. Hljóp ég sem leið lá fram með Skoda-umboðinu fyrir hornið og tók stefnuna til vesturs aftur í átt að Sigurði Elíassyni Hurðariðju inn á rauðamölina. Það fór sem ég vonaði, að þegar smiðurinn á Jesússkónum kom inn á hraunið var sem það rynni enn rauðglóandi, slík voru viðbrögðin. Týndi ég honum þarna í hrauninu og skokkaði létt niður á Nýbýlaveg. Engar hafði ég spýturnar út úr þessari Bjarmalandsför og minnist þess reynar ekki að hafa haft svo mikið sem eina flís út úr Hurðariðju Sigurðar Elíassonar eftir þetta. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband