Páskar.

Þá er blessað vorið farið að láta á sér kræla. Sólin skín í heiði (annan hvern dag) og daginn er tekið að lengja. Vorverkin eru enn sem komið er fólgin í því að horfa á snjóinn bráðna. Þá þarf einnig að ferma blessuð börnin. Gera má ráð fyrir að skíðabrekkurnar fyllist af fólki sem kann sér ekki læti að vera komið út í náttúruna. Lækur tifar létt við máða steina. Augnablik. Það er ekki komið sumar. Í augsýn eru hinar ýmsu gönguferðir um fjöll og firnindi. Fórum nokkrir félagar saman á gönguskíðum frá skíðasvæði allra landsmanna í Stafdal út Bjólfinn og gengum sem leið lá út í Hauga. Frábært útsýni þaðan. Hvet alla til að prófa þetta. Gleymdi myndavélinni. Jæja þar losnaði um ritstífluna. Látum nægja í bili.

P.s. Lionsmenn ætla að ganga í hús á Seyðisfirði í kvöld og selja blóm til styrktar góðum málefnum. Biðjum alla að taka vel á móti sölumönnum. Þá er minnt á páskabingó Lionsklúbbs Seyðisfjarðar sem að venju verður haldið laugardaginn fyrir páska. Frábærir vinningar í boði. Mætið öll með góða skapið. Héraðsbúar og ferðamenn eru sérstaklega hvattir til að mæta.    

kv.

LB 


Frá aðstoðarformanni Lionsklúbbs Seyðisfjarðar (Gunnari Sverrissyni).

Örlítið um klúbbinn

Lionsklúbbur Seyðisfjarðar var stofnaður 1965, félagar í dag eru 24. Klúbburinn hefur styrkt hin ýmsu verkefni í gegnum tíðina, ber þar hæst styrkir til sjúkrahússins á Seyðisfirði í formi tækjakaupa.Fyrsta verkefnið var m.a. kaup á fæðingarrúmi og með síðustu verkefnum voru kaup á ómskoðunartæki. Jafnframt þessu hefur klúbburinn styrkt hin ýmsu málefni í byggðalaginu, ekki síst barna- og unglingastarf. Meðal annarra verkefna má nefna aðstoð við íþróttafélag fatlaðara á staðnum, jólatrésskemmtun barna og nú nýverið bauð klúbburinn upp á blóðsykursmælingar fyrir 40 ára og eldri í samvinnu við Heilbrigðisstofnunina á Seyðisfirði. Rúmlega eitt hundrað mættu í mælingu. Fjáraflanir hafa verið með ýmsu móti, söfnun, sala og vinna. Sólarkaffisalan er nýjasta fjáröflunin. Ágóði af sölunni fer m.a. í að ljúka greiðslum á flygli sem klúbburinn gaf Seyðisfjarðarkirkju. Verkefni klúbbsins ná einnig út fyrir heimabyggð. Nú er að ljúka þriggja ára alþjóðlegu sjónverndarátaki Lionshreyfingarinnar. En baráttan gegn blindu er eitt af höfuðverkefnum Lionshreyfingarinnar um allan heim. Verkefni þetta hefur klúbburinn stutt dyggilega sem og aðrir Lionsklúbbar á Austurlandi. Dagana 3. til 6. apríl fer fram landssöfnun Lionsklúbba á Íslandi undir nafninu “Rauð fjöður”. Söfnun þessi verður til handa blindum og sjónskertum í samráði við Blindrafélagið. Kjörorð söfnunnarinnar er “leiðsöguhundur fyrir blinda”. 


Afleiðuuppstokkunarveltufjárframleiðnistuðulskennitölframsetningarmáti.

Flaug suður til Reykjavíkur í morgun til að fara á námskeið. Flugið var notalegt fyrir utan smá hristing í flugtaki. Las Moggann á leiðinni og aldrei þessu vant las ég viðskiptablaðið líka. Ég hefi aldrei botnað nokkurn skapaðan hlut í verðbréfamörkuðum eða viðskiptamálfari. En viti menn þarna voru skilgreiningar á helstu hugtökum markaðarins. Nú veit ég allt um veltufjárhlutfall, afleiðusamninga, kaupréttarsamninga og hvað þetta nú allt heitir. Vit mitt á þessu sviði nær til þess að byrja að kaupa hlutabréf daginn áður en þau fara að falla. Gott að ég setti ekki í þetta peninga sem mér þótti vænt um. Helst að setja aura í svona lagað sem maður vildi helst vera án. Jafnvel tapa. Nú er kannski lag að kaupa? Spyr sá sem ekki veit. Ef allir keyptu þá myndu félögin rétta úr kútnum ekki satt? Ég ráðlegg því öllum að kaupa í Landsbankanum, Glitni, KB-banka, Bakkavör, Alfreska, Össuri og Exista svo ég tapi ekki eins miklu.

Sólarkaffi o.fl.

Lítið hefur verið um að vera hérna fyrir austan að undanförnu. Aðallega hefur borið á vondu veðri og flestum samkomum verið aflýst vegna þess. Blankalogn skall á upp úr hádeginu í svo sem þrjú korter, en svo tók að blása aftur. Ekki hefur verið opið á skíðasvæðinu í Stafdal af þessum sökum. Liggur við að farið sé að slá í mannfólkið sem varla kemst út úr húsi. Spáð er að þessu linni með vorinu og verður gaman í maí að fara í göngutúra um bæinn. Lionsmenn ætla að selja Sólarkaffi á föstudaginn kemur. Verða seldir saman tveir pakkar í búnti á kr. 1.500.- Þetta ku vera úrvalskaffi úr tvenns konar baunum sem koma sitt úr hvorri heimsálfunni. Lionsklúbburinn á Seyðisfirði hefur einkaleyfi á framleiðslu Sólarkaffis og er hér um verndað vörumerki að ræða. Vonast klúbburinn til þess að íbúar taki sölumönnum vel.

Allt á kafi í snjó.

Hérna fyrir austan er allt á kafi í snjó. Það hefur snjóað látlaust í eina 2-3 daga. Þurfti að moka bílinn út úr innkeyrslunni í hádeginu og fékk svo vitanlega þursabit í kjölfarið. Skíðasvæðið lokað enda á eftir að vinna úr öllum þessum snjó. Búið að moka flestar götur bæjarins og orðið sæmilega fært um kaffileitið. Bolllurnar biða og rjúkandi kaffi á boðstólum. Verð því að hlaupa. Þakka þeim er lásu.

Ófærð

Ætlaði til Reykjavíkur í dag á fund. Komst ekki yfir Fjarðarheiði og auk þess var ekki flogið í tæka tíð til að ég næði á fundinn. Gengur bara betur næst.

Af gæsaveiðum á Dratthalastöðum

Nú skal frá því greint þegar ég fór ásamt vinnufélögum  á gæsaskytterí að Dratthalastöðum í Norður-Múlasýslu.   Það var að áliðnu hausti að Helgi Jensson sem þá var fluttur til héraðs frá Seyðisfirði hafði samband við okkur vinnufélagana og sagði að hann hefði fengið leyfi til að skjóta gæsir í túninu að Dratthalastöðum. Fórum við fjórir saman ég, Jói, Jónas og Helgi um þrjú leytið að nóttu áleiðis að Dratthalastöðum. Þegar við komum í hlaðið á Dratthalastöðum einhvern tíma um hálf fimmleytið var þar svartamyrkur og þoka yfir. Fannst okkur borgardrengjunum mér og Jóa, að það væri reykjarlykt í lofti og tjáðum okkur um það við sveitamennina Helga og Jónas. Helgi tjáði okkur þá að þegar hann hefði komið deginum áður að biðja um leyfi hefði bóndinn verið að reykja "selung". Létum við þetta gott heita og gengum niður bæjarhólinn í átt til skurða nokkurra í svo sem 500-700 metra fjarlægð frá bænum. Sá var háttur á gæsaveiðitúrum órum í þá tíð, að Helgi, sem er okkar frómust gæsaskytta, sagði okkur hvenær ætti að grúfa og hvenær að reisa upp höfuð,  munda byssu og skjóta. Gekk nú á þessu fram á morgun að tekur að birta. Verður Jóa þá á orði hvað honum þyki undarlegt, að leyst hafi upp þokuna alls staðar, nema í kring um bæinn. Helgi kvað það engum undrum sæta og myndi  þetta enn stafa af reykingum bónda. Leið svo nokkur stund. Að klukkustundu liðinni þótti mér undarlegt hversu umferð hafði aukist um hlaðið á Dratthalastöðum og hafið orð á þessu við foringja vorn. Hann kvað þetta alsiða, að bændur hittust að morgni dags hver hjá öðrum, tækju veðrið og fengju sér kaffi og með því. Enn grúfðum við og biðum gása. Gátum við þó ekki orðabundist þegar slökkviliðsbíllinn af Egilsstöðum ásamt Baldri Pálssyni, slökkviliðsstjóra og liði hans birtist á bæjarhellunni. Kunni foringinn þá ei lengur neinar skýringar á upphlaupi þessu. Drógumst við síðan á lappir og nálguðumst mannmergð þá sem orðin var á hlaðinu, heldur skömmustulegir og niðurlútir. Það mátti foringi vor eiga að hann tók að góðum sveitasið drjúgan þátt í slökkvistarfinu, en við borgardrengirnir forðuðum okkur í farskjóta vorn og höfum ekki sóst eftir gæsaveiðileyfum að Dratthalastöðum síðan. Hafði þarna kviknað í hlöðunni út frá súrheyi og eldurinn kraumað allt frá því kvöldinu áður.

 

 


Nýtt lag frá Árna Geir

Skoðið lagalistann. Ferskt lag frá Árna.

Blót og flugstopp.

Blótið fór hið besta fram eins og ég spáði. Hvílíkur lúxus að geta staðið upp án þess að þurfa að gera um það 20 síðna löggerning við manninn í stólnum fyrir aftan. Þá gengur meltingin öll miklu betur þegar pláss er til að kyngja. Einhverjir munu ekki hafa komist heim til sín á réttum tíma eftir blótið og stafaði það einkum og sér í lagi af því að ekki var flogið svo undarlega sem það kann að hljóma. Í grófri samantekt: Gott blót.

Þorrablót 2008

Mikið hefur gengið á í kringum þorrablót Seyðfirðinga í ár. Aðsóknin er svo mikil að flytja varð blótið úr gamla íþróttasalnum yfir í þann nýja. Gróa segir að á listum séu 450 blótsgestir og hvað sem um það má segja þá er hitt víst að bærinn er orðinn fullur af aðkomumönnum. Það er því mikill fiðringur í bæjarbúum að fara á blót þar sem bæði má búast við auknum fjölda gesta miðað við undanfarin ár og einnig verður tilbreyting að blóta Þorra í nýjum sal. Má gera ráð fyrir að rýmra verði um gesti en verið hefur. Ég hlakka því til að fara og horfast í augu við íslensku sauðkindina.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband