16.12.2014 | 15:04
Veðurteppi í Kópavogi
Eina ferðina enn er undirritaður veðurtepptur í Kópavogi. Fór til fundar á mánudegi og átti bókað flug í morgun. Hann skall svo á með snjófoki og safrenningi sem tæpast myndi teljast til veðurs á Vestfjörðum eða fyrir Austan en allt er í fári hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa "áhlaups". Hér sér vel á milli húsa enda byggð þétt. Að öllu gamni slepptu þá tekur það aðeins á þolinmæðina að hanga svona og bíða eftir flugi. Þá er gott að komast í vinnupóstinn sinn og geta sinnt brýnustu málum í tölvunni og í gegn um síma. Guði sé lof fyrir nútíma tækni.
13.7.2014 | 16:31
Beðið eftir úrslitaleik.
7.3.2014 | 13:44
Mat á snjóflóðahættu.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2014 | 10:04
Saga úr seinni heimsstyrjöldinni.
Einhvern tíma á árum seinni heimsstyrjaldarinnar voru þeir Bjarni Þorgeir Bjarnason, gullsmíðameistari og Bjarni Hinriksson, listmálari þá ungir menn um tvítugt á gangi eftir sveitavegi í Hornafirði. Sáu þeir hvar þýzk sprengjuflugvél kom fljúgandi af hafi inn fjörðinn. Ekki alls fjarri þar sem gönguleið þeirra lá var hermannabraggi og skúr sem í var loftvarnarbyssa til að verjast árásum þýzka flughersins. Þeir vinirnir hertu gönguna og hugðust vara setuliðið við yfirvofandi árás. Hermennirnir hafa orðið varir við flugvélina því allt í einu þustu fjölmargir hermenn út úr bragganum á nærklæðum einum fata. Hlupu sumir sem leið lá að skúrnum þar sem loftvarnarbyssan var en aðrir eigruðu um eins og fiðurfénaður og var mikið uppnám í liðinu. Flugvél hinna þýðverzku flaug yfir þá félaga þar sem þeir höfðu hent sér ofan í skurð. Sáu þeir glitta í einkennismerki skyttunar sem sat í skotturni flugvélarinnar og svo nálægt flaug hún að þeir gátu greint hnoðin á hliðum hennar er hún tók sveiginn yfir Ketillaugarfjallið. Tók hún þar sveig og flaug aftur út fjörðinn. Er þjóðverjarnir voru yfir herbúðum setuliðsins vörpuðu þeir sprengjum sínum. Þeir Bjarnarnir sáu tvær sprengjur koma frá flugvélinni. Lentu þær báðar í mýrinni næst bragganum og skúrnum með loftvarnarbyssunni. Önnur sprengjann sökk í mýrina en hin sprakk í yfirborði hennar. Þeyttist á loft ógrynni af moldardrullu sem lenti á bragganum en þó einkum á loftvarnarskýlinu. Flugvélin flaug út fjörðinn og hvarf sjónum þeirra félaganna og hermannanna eftir mislukkaða loftárás. I fyrstu var allt með kyrrum kjörum en um það bil fjórum mínútum eftir að sprengjunum var varpað tók að braka og bresta í skúrnum. Hermennirnir sem tekið höfðu sér stöðu við loftvarnarbyssuna en ekki komið að skoti komu hlaupandi út úr þessu merkilega mannvirki og áttu fótum fjör að launa. Fór svo að lokum að skúrbyggingin seig hægt og rólega á hliðina og lagðist að lokum alveg saman. Lauk þannig þessari velheppnuðu loftárás í Hornafirði.
Bjarni Hinriksson mun hafa teiknað upplifun sína af atburði þessum en teikningin hefur því miður glatast.
Skráð eftir munnlegri frásögn Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar í slævðri minningu ritara.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2013 | 17:32
Kynning á íbúafundi 16. desember á Fjarðarheiðargögnum.
19.12.2013 | 18:23
Kæra dagbók
Laugardagurinn 13. desember á því herrans ári 1997.
Allir í embættisbústað sýslumannsins á Seyðisfirði, að Miðtúni 13, sama stað, eru komnir á stjá. Börnin tvö, Árni Geir 11 ára, bráðum 12 og Ingibjörg nýlega 3 ára eru inni í sjónvarpsherbergi að horfa á Stöð 2 og klukkan er 09.50. Hrafnhildur er nýlega komin á fætur og byrjuð að hella upp á kaffi. Hún er 37 ára og varð fyrir því óláni að giftast mér fyrir rúmum 13 árum. Eina dóttur eigum við til viðbótar áðurtöldum búpeningi og er það Svava Kvennaskólapía 17 ára og nýkomin með bílpróf. Mikið fjör mikið gaman. Dagurinn í dag hófst með því að ég vaknaði við Ingibjörgu. Hún þurfti ýmsa aðhlynningu, sem var góðfúslega veitt og verður ekki útlistuð nánar.
Ýmislegt stendur til síðar í dag og til að gefa lesandanum ofurlitla innsýn í laugardagslíf Seyðfirðinga á þessum tímum skal þetta tíundað. Nú hætti ég ritun af óviðráðanlegum ástæðum. Afsakið þessa bið sem varð vegna smá heimilisvanda.
Í kvöld stendur Hótel Snæfell fyrir hlaðborði og dansleik og mun starfsfólk sýslumannsins ásamt mökum nota tækifærið og gera sér glaðan dag. Hefst sú gleði með hanastélsboði hér í þessu húsi kl.19.00 og stendur því mikið til. Bjarga þarf ísmolum fyrir hádegi úr Herðubreið og gera þarf ýmis innkaup. Þá verða tónleikar á vegum Tónlistarskóla Seyðisfjarðar í Seyðisfjarðarkirkju og á Árni Geir að leika þar á gítar m.a.
Lionsfélagar ætla upp á Hérað á sama tíma að sækja jólatré og vilja að allir klúbbfélagar mæti. Ekki er hægt að vera alls staðar í einu og mun ég því hvergi fara. Það vill segja að ég mun steðja í kirkjuna á tónleikana.
Þetta er það helsta sem verður á döfninni í dag en margt annað kann að vera í boði og eru verslanir hér í bæ opnar til kl.18.00 a.m.k.
Páll Óskar og nokkrir "vinir" munu skemmta um miðnætti á dansleiknum.
Meira síðar um Seyðisfjörð.
Þannig fært til bókar á ofangreindum degi. Fleira ekki gert. Bókun lokið.
17.12.2013 | 08:20
Borgarafundur 16. desember 2013.
Í gær mánudaginn 16. desember kl.17.00 var haldinn opinn bogarafundur í félagsheimilinu Herðubreið (Bíósal) um fjármál kaupstaðarins og samgögumál. Fundarstjóri var Arnbjörg Sveinsdóttir. Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri hafði framsögu um fjármál bæjarins og sýndi fram á viðsnúning í rekstrinum. Að lokinni framsögu voru leyfðar fyrirspurnir og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Þá var fjallað um stöðu í gangagerðarmálum. Fram kom m.a. að 30 milljónir hafa fengist á fjárlögum til að hefja tilraunasprengingar til að finna út hvar haganlegast er að hafa gangamunna Fjarðarheiðarganga. Mikil samstaða kom fram um að göng eigi að liggja til Héraðs í fyrstu. Þá var rætt um mögulegt aukið samstarf við önnur sveitarfélög og hugmyndir viðraðar um sameiningar við nágranna sveitarfélög. Sýndist þar sitt hverjum. Fundurinn var í alla staði góður og gagnlegur.
13.12.2013 | 11:15
Grunnþjónusta ríkisins.
13.12.2013 | 11:03
Áfangasigur. Þrjátíumilljónir inni.
Eins og mál standa nú eru þrjátíu milljónir inni til að hefja vinnu við undirbúning Fjarðarheiðarganga. Hefðum viljað fá hærri fjárhæð en þetta er strax byrjun. Við fögnum því að málið sé á dagskrá.