Veðurteppi í Kópavogi

Eina ferðina enn er undirritaður veðurtepptur í Kópavogi. Fór til fundar á mánudegi og átti bókað flug í morgun. Hann skall svo á með snjófoki og safrenningi sem tæpast myndi teljast til veðurs á Vestfjörðum eða fyrir Austan en allt er í fári hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa "áhlaups". Hér sér vel á milli húsa enda byggð þétt. Að öllu gamni slepptu þá tekur það aðeins á þolinmæðina að hanga svona og bíða eftir flugi. Þá er gott að komast í vinnupóstinn sinn og geta sinnt brýnustu málum í tölvunni og í gegn um síma. Guði sé lof fyrir nútíma tækni.laughing


Beðið eftir úrslitaleik.

Þá er búðið að gera allt klárt. Ostapopp, Doritos, kartöfluflögur og vitanlega Diet ídýfa ásamt Kristal til að allt sé löglegt og nú er bara að bíða til kl.19.00. 

Mat á snjóflóðahættu.

Vegna mikils fannfergis í fjöllum hér Austanlands þykir mér við hæfi að setja hérna inn leiðbeiningar um mat á snjóflóðahættu.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Saga úr seinni heimsstyrjöldinni.

Einhvern tíma á árum seinni heimsstyrjaldarinnar voru þeir Bjarni Þorgeir Bjarnason, gullsmíðameistari og Bjarni Hinriksson, listmálari þá ungir menn um tvítugt á gangi eftir sveitavegi í Hornafirði. Sáu þeir hvar þýzk sprengjuflugvél kom fljúgandi af hafi inn fjörðinn. Ekki alls fjarri þar sem gönguleið þeirra lá var hermannabraggi og skúr sem í var loftvarnarbyssa til að verjast árásum þýzka flughersins. Þeir vinirnir hertu gönguna og hugðust vara setuliðið við yfirvofandi árás. Hermennirnir hafa orðið varir við flugvélina því allt í einu þustu fjölmargir hermenn út úr bragganum á nærklæðum einum fata. Hlupu sumir sem leið lá að skúrnum þar sem loftvarnarbyssan var en aðrir eigruðu um eins og fiðurfénaður og var mikið uppnám í liðinu. Flugvél hinna þýðverzku flaug yfir þá félaga þar sem þeir höfðu hent sér ofan í skurð. Sáu þeir glitta í einkennismerki skyttunar sem sat í skotturni flugvélarinnar og svo nálægt flaug hún að þeir gátu greint hnoðin á hliðum hennar er hún tók sveiginn yfir Ketillaugarfjallið. Tók hún þar sveig og flaug aftur út fjörðinn. Er þjóðverjarnir voru yfir herbúðum setuliðsins vörpuðu þeir sprengjum sínum. Þeir Bjarnarnir sáu tvær sprengjur koma frá flugvélinni. Lentu þær báðar í mýrinni næst bragganum og skúrnum með loftvarnarbyssunni. Önnur sprengjann sökk í mýrina en hin sprakk í yfirborði hennar. Þeyttist á loft ógrynni af moldardrullu sem lenti á bragganum en þó einkum á loftvarnarskýlinu. Flugvélin flaug út fjörðinn og hvarf sjónum þeirra félaganna og hermannanna eftir mislukkaða loftárás. I fyrstu var allt með kyrrum kjörum en um það bil fjórum mínútum eftir að sprengjunum var varpað tók að braka og bresta í skúrnum. Hermennirnir sem tekið höfðu sér stöðu við loftvarnarbyssuna en ekki komið að skoti komu hlaupandi út úr þessu merkilega mannvirki og áttu fótum fjör að launa. Fór svo að lokum að skúrbyggingin seig hægt og rólega á hliðina og lagðist að lokum alveg saman. Lauk þannig þessari velheppnuðu loftárás í Hornafirði.

Bjarni Hinriksson mun hafa teiknað upplifun sína af atburði þessum en teikningin hefur því miður glatast. 

Skráð eftir munnlegri frásögn Bjarna Þorgeirs Bjarnasonar í slævðri minningu ritara. 


Ræktin, matarráðleggingar og sannleikurinn um samspil næringar og hreyfingar.

Nú byrjar ballið. Á Trýnu má sjá allra handa ráðleggingar um það hvað megi borða á milli mála til að halda línunum í lagi. Málið er einfalt: Ekki borða á milli mála. Borðið lítið sem ekkert. Hættið að hugsa endalaust um mat. Ekki horfa á matreiðsluþætti. Ekki framleiða fleiri matreiðsluþætti fyrir sjónvarp. Þeir eru ekki sjónvarpsefni. Ekki skrifa fleiri matreiðslubækur. Þær eru allar komnar út. Látið okkur bara í friði með mataráráttuna. Farið út að labba ef þið viljið léttast eða stundið einhverja hreyfingu. Ekki skrifa mikið um það hverning þið hreyfið ykkur. Við lærum flest að ganga um eða í kring um eins árs aldurinn. Farið í sund eða í ræktina. Ekki segja okkur hinum frá því hvað þið gerið í ræktinni eða hvað þið syndið marga km. Þið megið alveg vera ánægð með árangurinn og endilega látið vita. Ekki samt í smáatriðum. Reynið svo að halda þetta út lengur en til 15. janúar. Það væri ágætis tilbreyting. Endilega hættið að reykja. Reykingar eru heilsuspillandi fyrir ykkur og alla hina. Menga líka. Input/output það er málið. Ekki samt telja kaloríur. Það er leiðinlegt. Ef þið viljið frekari ráðleggingar ekki hringja í 896-....... Ég verð á fjöllum.

Kynning á íbúafundi 16. desember á Fjarðarheiðargögnum.

Eins og greint hefur verið frá hér á bloggsíðunni var haldinn íbúafundur á Seyðisfirði hinn 16. desember 2013. Þá var m.a. meðfylgjandi Powerpoint kynning sett fram. Hún er hér án frekari skýringa sett fram sem kynning sem gott er að skrolla í gegnum til að kynna sér í fljótu bragði möguleikana og þörfina á göngum. Áhersla er lögð á að slík gögn eru ekki bara ætluð Seyðfirðingum einum heldur er hér um að ræða byggðamál, öryggismál, atvinnuöryggismál og samgögumál allt í einu og sama málinu. Þá er vert að velta fyrir sér umferð um Fjarðarheiði sem vænanlega mun aukast við tilkomu ganga. Tenging við Evrópu og svo mætti lengi telja.  Kynningin segir meira en ég kem hér að í nokkrum orðum og hendi ég henni hér inn. Tekið skal fram að þessi leið er valin þar sem erfitt sýnist að koma kynningunni beint á Facebook.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kæra dagbók

Laugardagurinn 13. desember á því herrans ári 1997.

Allir í embættisbústað sýslumannsins á Seyðisfirði, að Miðtúni 13, sama stað, eru komnir á stjá. Börnin tvö, Árni Geir 11 ára, bráðum 12 og Ingibjörg nýlega 3 ára eru inni í sjónvarpsherbergi að horfa á Stöð 2 og klukkan er 09.50. Hrafnhildur er nýlega komin á fætur og byrjuð að hella upp á kaffi. Hún er 37 ára og varð fyrir því óláni að giftast mér fyrir rúmum 13 árum. Eina dóttur eigum við til viðbótar áðurtöldum búpeningi og er það Svava Kvennaskólapía 17 ára og nýkomin með bílpróf. Mikið fjör mikið gaman. Dagurinn í dag hófst með því að ég vaknaði við Ingibjörgu. Hún þurfti ýmsa aðhlynningu, sem var góðfúslega veitt og verður ekki útlistuð nánar.

Ýmislegt stendur til síðar í dag og til að gefa lesandanum ofurlitla innsýn í laugardagslíf Seyðfirðinga á þessum tímum skal þetta tíundað. Nú hætti ég ritun af óviðráðanlegum ástæðum. Afsakið þessa bið sem varð vegna smá heimilisvanda. 

Í kvöld stendur Hótel Snæfell fyrir hlaðborði og dansleik og mun starfsfólk sýslumannsins ásamt mökum nota tækifærið og gera sér glaðan dag. Hefst sú gleði með hanastélsboði hér í þessu húsi kl.19.00 og stendur því mikið til. Bjarga þarf ísmolum fyrir hádegi úr Herðubreið og gera þarf ýmis innkaup. Þá verða tónleikar á vegum Tónlistarskóla Seyðisfjarðar í Seyðisfjarðarkirkju og á Árni Geir að leika þar á gítar m.a.

Lionsfélagar ætla upp á Hérað á sama tíma að sækja jólatré og vilja að allir klúbbfélagar mæti. Ekki er hægt að vera alls staðar í einu og mun ég því hvergi fara. Það vill segja að ég mun steðja í kirkjuna á tónleikana.

Þetta er það helsta sem verður á döfninni í dag en margt annað kann að vera í boði og eru verslanir hér í bæ opnar til kl.18.00 a.m.k.

Páll Óskar og nokkrir "vinir" munu skemmta um miðnætti á dansleiknum.

Meira síðar um Seyðisfjörð.

Þannig fært til bókar á ofangreindum degi. Fleira ekki gert. Bókun lokið.     

 


Borgarafundur 16. desember 2013.

Í gær mánudaginn 16. desember kl.17.00 var haldinn opinn bogarafundur í félagsheimilinu Herðubreið (Bíósal) um fjármál kaupstaðarins og samgögumál. Fundarstjóri var Arnbjörg Sveinsdóttir. Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri hafði framsögu um fjármál bæjarins og sýndi fram á viðsnúning í rekstrinum. Að lokinni framsögu voru leyfðar fyrirspurnir og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Þá var fjallað um stöðu í gangagerðarmálum. Fram kom m.a. að 30 milljónir hafa fengist á fjárlögum til að hefja tilraunasprengingar til að finna út hvar haganlegast er að hafa gangamunna Fjarðarheiðarganga. Mikil samstaða kom fram um að göng eigi að liggja til Héraðs í fyrstu. Þá var rætt um mögulegt aukið samstarf við önnur sveitarfélög og hugmyndir viðraðar um sameiningar við nágranna sveitarfélög. Sýndist þar sitt hverjum. Fundurinn var í alla staði góður og gagnlegur.


Grunnþjónusta ríkisins.

Sá merkilega grein í Morgunblaðinu um daginn þar sem fjallað var um grunnþjónustu og skyldur ríkisins við þegnana. Þar var skýrt fram sett það sem margir hugsa en færri hafa orðað, að ríkið hefur ákveðnum grunnskyldum að gegna og að forgangsraða þurfi þannig að þeim skyldum sé fullnægt fyrst og síðast. Vitanlega geta verið uppi áhöld og deilur um það hverjar þessar frumskyldur séu. Flestir geta þó verið sammála um að ríki þarf að halda uppi lögum og reglu. Þannig var a.m.k. lögð á það mikil áhersla þegar ég var að alast upp sem gerðist við kristnitökuna á þingvöllum árið 1000, að ef við slitum sundur lögin þá slitum við og friðinn. Réttaröryggi er því ein af frumgreinum ríkisvaldsins og án þess verður tæplega nokkurt ríki. Skýtur þá nokkuð skökku við þegar fjármunir eru takmarkaðir ef þeim er ekki varið til þess að efla þætti sem allir geta verið sammála um að séu brýnastir. Aðrar frumskyldur er við heilsu almennings. Þarf að sjá til þess að fólk eigi ávalt völ á sem bestri og tryggastri heilsugæslu. Fæðuöryggis þarf að gæta og svo mætti lengi telja. Á hinn bógin eru þættir sem ekki eru eins nauðsynlegir sem ríkið rembist við að halda úti. Mætti þar nefna hluti eins og alls konar nefndarstörf. Eftirlitsiðnaðurinn tekur til sín gífurlegt fjármagn og sama má segja um utanríkisþjónustuna sem mætti að skaðlausu draga verulega saman.

Áfangasigur. Þrjátíumilljónir inni.

Eins og mál standa nú eru þrjátíu milljónir inni til að hefja vinnu við undirbúning Fjarðarheiðarganga. Hefðum viljað fá hærri fjárhæð en þetta er strax byrjun. Við fögnum því að málið sé á dagskrá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband